25.03.1933
Efri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Jakob Möller:

Ég verð að telja, að orðalag frv. sé heppilegra en orðalag brtt. Ég held, að enginn vafi getið leikið á, að heppilegast sé að vitamálastjóri ráði vitaverðina og beri ábyrgð á þeim, þar sem hann hefir miklu betri aðstöðu en ráðh. til að meta hæfileika þeirra. Ef svo vill til hinsvegar, að ráðh. sé kunnugur í þessum efnum, er enginn vafi á því, að hann getur haft áhrif á veitinguna. Ráðh. yrði einnig þægilegra, að vitamálastjóri réði vitaverðina, því að með þeim hætti væri hann leystur undan allskonar kvabbi.