04.05.1933
Neðri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég verð að taka undir það með hv. sjútvn., að það er ekki ástæða til þess að taka þennan vita upp.

Þessi viti er. eins og hv. þm. Seyðf. viðurkenndi, innsiglingarviti fyrir Seyðisfjörð. En þó skiptir það mestu máli, að hann er byggður af Seyðisfjarðarkaupstað og rekinn af honum En vegna lélegs viðhalds er hann nú orðinn ónýtur. Það hefir staðið í stímabraki út af þessu milli vitamálastjóra og Seyðisfjarðarkaupstaðar, og ef ríkið ætti nú að taka við þessum vita, þá yrði að byggja hann upp að nýju þegar í stað. Ég skal ekkert um það segja, hvort hægt sé að finna vita, sem líkt stendur á um, en Seyðisfjarðarkaupstaður hefir sýnt í verkinu, að hann telur vitann sinn vita. Kaupstaðurinn lét byggja hann 1908 og hefir annazt rekstur hans síðan. Af þessum ástæðum leggst ég á móti því að gera hann að ríkisvita og tek alveg í sama strenginn og hv. sjútvn.