04.05.1933
Neðri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Haraldur Guðmundsson:

Ég fæ ekki séð, að það skipti máli, þó að Seyðisfjarðarkaupstaður hafi byggt vitann á sínum tíma og rekið hann til þessa. Það er vitanlega ekki rétt að láta hann gjalda þess, að hann hefir byggt vita fyrir ríkissjóð. Það kemur ekkert þessu máli við, hvort Seyðisfjarðarkaupstaður þarf að verja miklu fé eða litlu til hafnarbóta. Og þar sem bæjarfélagið nú hefir borið útgjöldin bæði við byggingu vitans og rekstur hans til þessa, þá er ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt, að ríkið taki nú við.

Það vita allir, sem eitthvað þekkja til, og það veit hv. 1. þm. S.-M., að það stendur nákvæmlega eins á um þennan vita eins og vitann á Hellisfirði, sem nú á að gera að ríkisvita. Hann er innsiglingarviti, en um leið notaður í strandsiglingum. Og sama er að segja um ýmsa aðra vita. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að það þarf að gera við vitann á Brimnesi, en það er engu að síður rétt að taka hann í tölu ríkisvitanna.

Hv. þm. Vestm. sagði, að efnahagur Seyðisfjarðarkaupstaðar væri svo góður, að hann ætti auðvelt með að standa straum af þessum útgjöldum. Þetta má vel vera, að rétt sé, en það kemur ekkert þessu máli við, og mér virðist engin ástæða til þess að taka þennan vita undan af þeim sökum.