17.02.1933
Efri deild: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson:

Um þetta mál urðu miklar umr. á þinginu í fyrra, en ég finn ástæðu til þegar við þessa umr. að rifja upp nokkur atriði málsins, er þá var allmikið deilt um, en það er í sambandi við 3. lið í 1. gr. frv. Á þinginu 1931 voru samþ. lög um tóbakseinkasölu Íslands fyrir sameinað fylgi. Alþfl. og Framsóknarfl. Voru það þá samningar milli þessara tveggja flokka, að verja skyldi rekstrarágóða þessarar stofnunar til styrktar tveimur öðrum stofnunum, sem flokkarnir höfðu borið fyrir brjósti, sem voru byggingarsjóður verkamannabústaða í kaupstöðum og byggingar- og landnámssjóður. Var þetta sett í lögin um tóbakseinkasöluna auk þessa af þeirri ástæðu, að þá þóttu minni líkur til þess, að Sjálfstæðisfl. tækist síðar að granda einkasölunni, vegna þess hve það væri óvinsælt verk að svipta nefndar stofnanir þessum tekjum. En ári síðar en þetta gerðist kemur svo frá Framsfl. og Sjálfstfl. sameiginlega sú till. að svipta stofnanirnar þessum tekjum. Auðvitað er hér um að ræða fullkomna brigðmælgi frá hendi Framsfl. Óneitanlega er það nauðsyn fyrir ríkissjóð að fá þessar tekjur, en nauðsyn stofnananna er engu minni. Hér er því vandi á báða bóga. Síðan tóbakseinkasölulögin voru samþ. hafði engin breyt. orðið í þessu efni önnur en sú, að Framsfl. og Sjálfstfl. höfðu tekið höndum saman um stjórnarmyndun. Nú þykir mér undarlegt, að hæstv. fjmrh. skuli enn halda hina sömu braut í þessu máli, þar sem hann gerði þó þá linkind í fyrra að fallast á, að þessi ákvæði skyldu ekki gilda nema fram að 1. júlí þ. á., en arðurinn eftir það renna til verkamannabústaðanna og byggingar- og landnámssjóðs síðari hluta þessa árs, og eftir ummælum hæstv. forsrh. á síðasta þingi, sem ég skal lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta: „En ég ber fram þessa brtt. til þess að sýna mína fyrirætlun í þessum efnum“, verður að ganga út frá því, að honum hafi verið það ríkt í hug, að hér væri aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, sem ekki ætti að gilda nema yfir fyrri hluta yfirstandandi árs. En nú er til þess mælzt af hæstv. fjmrh., að arðurinn af tóbakseinkasölunni skuli óskiptur renna í ríkissjóðinn árið 1934, og má vera, að frv. eigi einnig að fela það í sér, að þangað færi einnig ágóðinn seinni hluta ársins 1933, en ekki til stofnananna. Það er a. m. k. ekki öruggt eftir orðalagi frv., að ágóðinn skuli renna til þeirra, og ef til vill kemur fram seinna á þinginu skýrari till. um það, að tileinka ríkissjóði allan arðinn. Ég verð að segja það út af þessum 3. lið 1. gr. frv., að mér kemur hann næsta óvart eftir ummælum hæstv. ráðh. í fyrra.