17.02.1933
Efri deild: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jakob Möller:

Ég vildi aðeins hreyfa aths. út af 2. lið 1. gr. frv., þar sem ræðir um skemmtanaskattinn. Eins og kunnugt er, er hér í smíðum vandað þjóðleikhús, sem búið er að mestu leyti að byggja hið ytra; þó vantar það á, sem óhjákvæmilegt er, að framkvæmt verði í næstu framtíð, en það er húðun hússins utan, og til þess mun þurfa 20 til 30 þús. kr., og þar sem byggingarsjóður hússins hefir ekki fé þetta fyrir hendi, sé ég ekki betur en að ríkissjóður verði hér að koma til hjálpar, ef skemmtanaskattinn á framvegis að taka af leikhúsinu. Þá er það og auðskilið mál, að verði svo, hlýtur bygging hússins að öðru leyti að stöðvast, og þar með verður það fé, sem þegar er búið að leggja til hússins, óarðbær eign í næstu framtíð, í stað þess ef skemmtanaskatturinn gengi til leikhússins, eins og lög standa til, að þá yrði þó a. m. k. hægt að fullgera húsið það mikið, að hægt yrði að nota það fyrir kvikmyndasýningar. Ég hygg því, að það sé algerlega misráðið að stöðva byggingu hússins, en hitt væri betra, að gera það nothæft sem kvikmyndahús. Það hefir sýnt sig, að slík fyrirtæki eru arðsöm og gefa vissar tekjur. Hér er því alls ekki um neina áhættu að ræða, heldur þvert á móti.

Ég geri ráð fyrir, að stjórn sjóðsins leiti til fjvn. um aðstoð til þess að geta haldið áfram byggingunni og lokið henni að þessu leyti, hvort sem niðurstaðan kynni að verða sú, að skemmtanaskatturinn yrði tekinn aftur til þess, eða þá að einhver önnur leið yrði fundin til þess að bjarga þessu við Ég vildi hreyfa þessu nú þegar við þessa umr. málsins, svo að hv. n. tæki til athugunar, á hvern hátt mætti sjá þessu máli borgið. Ég tel engan vafa á því, að hægt væri að fá lán til þess að fullgera leikhúsið sem kvikmyndahús, lán, sem leikhúsið gæti staðið undir sjálft og endurborgað á tiltölulega skömmum tíma, en auðvitað þyrfti ábyrgð ríkissjóðs.

Það er ekki aðeins fjárhagslegur skaði að láta þessa byggingu standa ónotaða og arðlausa, heldur er það einnig hneisa fyrir landið að láta það standa þannig ár frá ári.