25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson:

Út af þessu frv., sem er eitt af mörgum tekjufrv., sem stj. ber fram, vil ég beina því til Sjálfstfl., hvort það sé orðið samkomulag milli flokksins og stj. að láta öll tekjufrv. stj. ganga fram, svo að þingið missi alls halds á stj. í tekjumálunum. Form. Sjálfstfl. hefir áður gefið yfirlýsingar um það, að flokkurinn mundi binda samþykkt tekjufrv. við lausn stjskrmálsins, en nú heyrist ekkert frá form. Sjálfstfl. um þetta, hvort sem það á að taka sem óbeina yfirlýsingu af flokksins hálfu eða ekki, og enda þótt hv. 1. landsk. eigi sæti í þeirri n., sem fjallaði um þetta mál, en hinsvegar hefir hv. 1. þm. Reykv. tekið að sér að mæla með samþykkt frv., og þó sérstaklega að mæla með því að svipta byggingafélög verkamanna og byggingar- og landnámssjóð þeim styrk til starfsemi sinnar, sem þeim var ákveðinn með l. um einkasölu á tóbaki 1931. Virðist og næsta vel til fallið, að hv. 1. þm. Reykv. taki að sér að firra stj. vanda og óvinsældum út af þessum gripdeildum, því að Reykvíkingar eru mestu sviptir, ef þetta nær fram að ganga. Til verkamannabústaðanna hér rennur mest féð, en hv. 1. þm. Reykv. liggur auðvitað í léttu rúmi, þótt verkamenn séu sviptir þessu. — Hv. þm. lýsti yfir því í þessu sambandi, að hér væri nóg húsnæði og að bærinn væri að yfirbyggjast. Kann hv. þm. að hafa eitthvað fyrir sér í því, að minni eftirspurn sé nú eftir húsnæði hér en venja er, en hv. þm. er ekki vel kunnugur í bænum, ef hann heldur, að verkamönnum og handiðnaðarmönnum gangi vel að fá íbúðir sér við hæfi, því að hér er mikill skortur einmitt á slíkum íbúðum, tveggja herbergja íbúðum með eldhúsi og einhverjum helztu þægindum. Hitt má vera, að eitthvað sé hér til af dýrum íbúðum og að leigan á þeim hafi fallið eitthvað, en ég get hugsað mér, að hv. 1. þm. Reykv. mundi komast að raun um það, ef hann athugaði þetta ofan í kjölinn, að mjög er erfitt að fá hér hæfilegar, ódýrar og góðar íbúðir fyrir hinar vinnandi stéttir í bænum. Hér er því hin brýnasta þörf á, að komið sé upp húsnæði með það fyrir augum, að það verði ekki of stórt, heldur við hæfi þeirra, sem ekki hafa úr miklu að moða, eins og einmitt verkamannabústaðirnir eru.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um hrossakaupin, sem stundum tíðkast hér í þinginu, eins og honum væri mjög illa við þau. Var eins og hv. þm. hefði aldrei verið við neina slíka hluti riðinn á æfinni, og halda þó sumir því fram, að hann muni ekki ókunnugastur þeim þætti stjórnmálanna, og ekki hefir það heldur farið dult, að flokkur hv. þm. er reiðubúinn til að gera hrossakaup við stj. út af stjskrmálinu. Annars má hv. 1. þm. Reykv. gjarnan kalla það hrossakaup, að þetta samkomulag varð á milli Framsfl. og Alþfl. á þinginu 1931 um að samþ. tóbakseinkasöluna, en binda tekjur hennar með það fyrir augum, að íhaldsfólkið ætti erfitt með að afnema einkasöluna, ef það skyldi komast til valda aftur, og hún gæti lengi staðið. En þetta breyttist eins og annað eftir að Framsfl. tók upp samvinnu við Sjálfstfl., og má vel vera, að Framsfl. jafnvel fallist á það að afnema einkasöluna, ef íhaldið óskar eftir, því að Framsfl. hefir, að ég held, brotið hvern einasta lið í stefnuskrá sinni, svo að þetta væri ekki nema eftir öðru. (PHerm: Hefir Alþfl. ekki brotið alla liði í sinni stefnuskrá líka?). Ég skil ekki í þessum brjóstheilindum hjá hv. sessunaut mínum.

Hæstv. forsrh. gat þess, að tekjurnar, sem einkasalan mundi gefa af sér, mundu verða miklu meiri en þingið hefði ráð fyrir gert, ca. 400 þús. þetta ár, í stað 200 þús., sem upphaflega var áætlað. Skal ég ekkert um það segja, hvort þessar auknu tekjur eru að þakka aukinni álagningu, sem þingið samþ. í fyrra, eða einkasalan hefir aukið söluna frá því, sem áður var, svo að meiri ágóði fáist af verzluninni beint. Út frá þessu, að einkasalan gefur meiri tekjur en upprunalega var ætlazt til, sýnist sem ríkissjóður ætti að standa sig við að láta a. m. k. þessar 200 þús. kr. renna til sjóðanna, sem áskilið var, enda skildist mér það jafnvel á hæstv. ráðh., þrátt fyrir allan móðinn, sem í honum var, að hann mundi geta fallizt á, að sjóðirnir yrðu ekki sviptir öllu framlaginu.

Hæstv. ráðh. lét svo um mælt, að menn mættu ekki búast við, að það fé, sem veitt yrði til byggingar verkamannabústaðanna, yrði til að bæta úr atvinnuleysinu, af því að vinnan við byggingu þeirra kæmi út sem sumarvinna, en ekki vetrarvinna. Vil ég út af þessu beina því til hæstv. ráðh., að það, sem gera á í atvinnuleysismálunum, er að framkvæma mikla vinnu, þegar eitthvað verður úr vinnunni, en ekki alltaf að vera að hugsa um þessa vetrarvinnu, sem bæði er þeim mönnum, sem vinnunnar njóta, og því opinbera til minna gagns. Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að atvinnubótavinna þurfi óhjákvæmilega að vera vetrarvinna, og að mínum dómi á að fella niður eitthvað af vinnunni þann hluta ársins, sem erfiðast er um framkvæmdir.

Þá sagði hæstv. ráðh., að iðnaðarmenn og smiðir hefðu hingað til komizt af án atvinnubóta, en sannleikurinn er sá, að byggingar hafa minnkað mjög mikið, svo að fjölmargir iðnaðarmenn, trésmiðir og steinsmiðir, hafa lítið sem ekkert að gera, en hafa bætzt við í hóp atvinnuleysingjanna á eyrinni, og að iðnaðarmenn taka að sér algenga verkamannavinnu, sýnir, hve atvinnuleysið á meðal þeirra er orðið mikið. Það er því ekki rétt, sem hæstv. ráðh. segir um þetta, eins og sjá má af því, sem ég hefi þegar bent á og ekki verður mótmælt.

Hæstv. ráðh. sagði, að ríkissjóður mætti ekki missa af þeim tekjum, sem af bráðabirgðabreyt. leiddi, m. a. vegna væntanlegra kreppuráðstafana, sem myndu hafa stórum aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð. Nú er að vísu verið að útbýta stóru, miklu frv. frá kreppun. Nd., sem sjálfsagt fer fram á mikil útgjöld úr ríkissjóði, en til þessa hefir kreppumálunum verið heldur dauflega tekið hér á Alþingi. Er langt síðan þm. Alþfl. í Nd. báru þar fram frv. um miklar atvinnubætur auk annara nauðsynlegra kreppuráðstafana, og var frv. vísað til kreppun., sem kosin var með þessi mál fyrir augum. En n. hefir ekkert látið til sín heyra um þetta síðan, svo að enn er ekki sýnilegt, í hverjar ráðstafanir ríkissjóður þarf að leggja þessar háu fjárhæðir, sem hæstv. ráðh. var að tala um. Þær ráðstafanir liggja a. m. k. ekki fyrir í því formi, að hægt sé að tala um þær nú, því að ég geri varla ráð fyrir, vegna hinna daufu undirtekta, sem frv. okkar Alþflmanna hefir fengið, að hæstv. ráðh. eigi við þær ráðstafanir, sem það áformar, þótt ég neiti því ekki, að mér væri gleðiefni, ef svo væri.

Ég skal ekki segja, hvernig fer um þennan 3. lið 1. gr. við atkvgr. Ég býst þó við því, að samfylkingin hér í d. sé búin að koma sér niður á eitthvað til að samþ., en ég vænti þess, að hæstv. ráðh. verði til viðtals, eins og hann stundum segir, um það, hvort hann muni ekki geta a. m. k. fallizt á að láta eitthvað af tekjum einkasölunnar ganga til verkamannabústaðanna og byggingar- og landnámssjóðs, og þá helzt ekki lægri upphæð en upprunalega var gert ráð fyrir, 200 þús. kr. Fengi ríkissjóður þá að sínu leyti meira en gert var ráð fyrir upphaflega, en sjóðirnir væru ekki með öllu sviptir því fjárframlagi, sem þeim, var áskilið. En um þetta má tala frekar við 3. umr., ef svo skyldi fara, að liðurinn yrði ekki felldur niður úr frv., eins og ég fastlega vona, að verði.