25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Ingvar Pálmason:

Hæstv. fjmrh. sagði, að ég og aðrir, sem hefðu greitt atkv. með því í fyrra, að tekjur tóbakseinkasölunnar rynnu í ríkissjóð, hlytu að gera hið sama nú. Ég er á öðru máli. Í fyrra var um það eitt að ræða, að tekjur þessar rynnu í ríkissjóð frá l. júlí 1932 og fram á þetta ár, og séð fyrir því, að hlutaðeigandi stofnanir misstu ekki tillögin nema að nokkru leyti. En nú lítur út fyrir, að eigi að stefna að því, að þessar tekjur renni framvegis að öllu leyti í ríkissjóð. Þetta tel ég ekki vera rétt, því að ég álít í fyrsta lagi, að hér sé verið að ganga á samkomulag þeirra flokka, er samþ. tóbakseinkasöluna, og í öðru lagi af því, að ég álít, að stofnanirnar þurfi teknanna við. Ég get því alls ekki fallizt á, að ég sé bundinn við að greiða þessum lið atkv. nú, þótt ég gerði það í fyrra, þar sem gengið er töluvert lengra í þessu frv. og allt bendir til þess, að hér sé um framtíðarráðstöfun að ræða.

Ég skal ekki blanda mér inn í deiluna um það, hvort hætta sé á húsnæðisskorti í bænum eða ekki. En þeim mönnum, sem koma hingað og dvelja hér stuttan tíma, kemur ástandið svo fyrir sjónir, að framboðið geti ekki verið mjög mikið. Við þm. munum t. d. fæstir borga undir 60 kr. fyrir eitt herbergi. (JakM: Það er svona þrefalt meira en hægt er að fá herbergi fyrir). Ekki þykir mér það trúlegt, því að ég veit dæmi þess um persónur, sem ætla bráðum að stofna heimili, að lægsta leigutilboð í húsnæði, sem þau hafa getað fengið, er 90 kr. á mánuði fyrir eina stofu og eldhús. Og ég veit um aðra fjölskyldu, sem hefir svipaða sögu að segja. Svona lítur þetta út í augum ókunnugra, og ég veit, að áþekk dæmi er hægt að fá staðfest með vitnisburði manna hér í þingsalnum.

Mér þótti leiðinlegt að heyra það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um hrossakaup. Hann kallaði þau óheiðarlega verzlun. Í eiginlegri merkingu hafa þau jafnan verið talin heiðarleg, og hvað sem um þau má segja í óheiðarlegri merkingu, hefir þó ávallt þótt heiðarlegt að standa við þau. Ég mun því verða varfærinn í slíkri verzlun við hann, en ég skammast mín ekkert fyrir að segja það, að þegar ég hefi lofað einhverju máli stuðningi mínum, tel ég mig bundinn við það loforð, jafnvel þótt það sé kallað hrossakaup. En ég vona, að hv. 1. þm. Reykv. hafi ekki meint þetta, því að vel getur verið, að hann lendi í einhverri verzlun hér á þinginu.