25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Þorláksson:

Það hefir verið spurt um mína afstöðu til málsins. Hún er sú, að ég mun greiða atkv. með öllum liðum 1. gr. til 3. umr., en hefi þá óbundnar hendur. Ég álít sjálfsagt, að lagt verði fé til að fullgera þjóðleikhúsið að utan, ekki vegna þess, að hér sé um gróðafyrirtæki að ræða, heldur af því, að húsið liggur að öðrum kosti undir skemmdum. Ég skal játa, að það er mikil freisting fyrir okkur sjálfstæðismenn að greiða atkv. gegn 3. lið 1. gr. Þegar tóbakseinkasalan var stofnuð, voru þau rök, sem raunar voru röng, færð fyrir þeirri ráðstöfun, að þetta ætti að vera ríkissjóði til tekjuauka. Þessi rök voru röng af því, að það hafði sýnt sig, að tollur í frjálsri verzlun hafði reynzt ríkissjóði miklu tekjudrýgri. En áður en frv. um tóbakseinkasöluna verður að lögum, setja stuðningsmenn þess inn í það ákvæði, sem raunverulega sviptir ríkissjóð þessum tekjum. Lögin leiddu því til mikillar skerðingar á tekjum ríkissjóðs, og það er engin von til þess, að nokkur fjmrh. uni því, að þessi samningur Framsfl. og Alþfl. verði haldinn. Ef þingið héldi áfram að neita ríkissjóði um þessar tekjur, hlyti það óhjákvæmilega að leiða til þess, að tóbaksverzlunin yrði lögð niður. Það er því hörð freisting fyrir Sjálfstæðisfl. að segja nei, þegar stj. fer fram á að gefa tóbakseinkasölunni líf með því að rjúfa hinn gamla samning, sem tóbakseinkasalan er fædd og skírð upp á. Ég sé þó ekki ástæðu til að nota þetta tækifæri til að knýja fram afnám tóbakseinkasölunnar, því að ég veit, að heilbrigð skynsemi á svo skammt til sigurs, að þetta endemisfóstur verður bráðlega lagt í sömu gröf og systir þess, gamla tóbakseinkasalan.