25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég held, að hv. 1. þm. Reykv. geri ráð fyrir meiri sljóleika hjá hv. þdm. en sæmilegt er, er hann heldur því fram, að ekki sé gróðavegur að reka hér kvikmyndahús. Stórhýsin tvö, sem kvikmyndir eru sýndar í hér, hafa borgað sig upp á fáum árum, enda er það ljóst, þegar litið er á aðsóknina og verð á aðgöngumiðum, að hér er um gróðafyrirtæki að ræða. Brtt. mín miðar að því, að þjóðleikhúsið megi einnig græða nokkurt fé á þennan hátt og auk þess fullnægja skemmtanaþörf borgaranna.

Hér hefir verið mikið rætt um 3. liðinn. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þær tekjur, sem þar ræðir um, hefðu verið teknar af ríkissjóði með hrossakaupum. Þetta er ekki rétt hjá þessum hv. þm., því að hér liggur fyrir lögfest samkomulag, staðfest af kónginum. Annarsvegar eiga tvær stéttir starfandi manna í landinu hlut að máli og hinsvegar ein stétt, sem hafði ágóða af því að verzla með tóbak, sem hún hefði getað byggt „villur“ fyrir, ef hún hefði fengið að halda honum. En hvarvetna annarsstaðar mun litið svo á, að réttara sé að reisa hús yfir starfsfólkið í landinu heldur en dýrar stórbyggingar yfir einstakar fjölskyldur ríkra manna. Ríkissjóður hefði orðið jafnfátækur, þótt kaupmennirnir hefðu tekið gróðann af tóbaksverzluninni, en það er ekki annað en hann, sem ganga á samkv. lögum til bygginga yfir fátækt iðjufólk í landinu.

Út af ummælum hæstv. fjmrh. vil ég segja það, að enginn ber brigður á, að ríkissjóður þurfi peninga við og muni þurfa meiri, en það er enginn sem segir, að þessa peninga megi ekki fá á annan hátt en þennan. Hverskonar óhóf í landinu mætti skattleggja, en um það hefir hæstv. ráðh. ekkert frv. borið fram, heldur kemur tekjujöfnuðurinn fram á þeim fátækustu, sem búa í hálfhrundum bæjum í sveitum og kjallaraholum og þakherbergjum í Reykjavík, heilsu og menningu til niðurdreps, meðan ríku mennirnir í „villunum“ lifa í óskattlögðu óhófi. Hæstv. stj. og hennar vinir mega vera þess viss, að það kemur hljóð úr horni, ef svipta á fólk þeim endurbótum á húsakynnum, sem heilsan krefst og lofað hefir verið með lagasamþykkt.

Við vorum hér í gær að samþ. við á. umr. frv. um að hjálpa háskólanum til þess að fá peninga upp í byggingarkostnað af vissri óhófseyðslu. Ég álít það þarft og gott verk að ráðstafa þannig til gagnlegra hluta innanlands því fé, sem annars færi að miklu leyti út úr landinu. En þó þörf háskólans á byggingu sé mikil, þá mun engu síður vera þörf á að byggja yfir starfsfólkið í landinu. Það mun ekki hallast á um ómöguleikann á því að komast hjá því að bæta úr húsnæðisþörfinni, hvort sem litið er til háskólans, verkalýðsins við sjóinn eða bændanna.

Ef það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að hér í Rvík sé ekki þörf á að byggja smáíbúðir, vegna þess að svo mikið húsnæði sé laust í bænum, þá hlýtur mjög mikil breyt. að hafa orðið á síðan þetta mál var rannsakað siðast. Þá var einn þriðji af öllum þeim íbúðum, sem starfsfólkið í bænum bjó í, þannig, að þær urðu að teljast ómögulegar. Það getur verið, að það sé rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að menn séu komnir í vandræði með eitthvað af stóru íbúðunum. En ég hefði gaman af að sjá, hvað margar smáíbúðir eru lausar, íbúðir, sem eru svipaðar íbúðum verkamannabústaðanna. Ég býst við, að það yrðu nokkuð margir lysthafendur, ef jafnódýrar íbúðir og þar eru væru á boðstólum. En hv. 1. þm. Reykv. telur sig e. t. v. þm. fyrir „villu“hverfin fyrst og fremst, og er það sennilega rétt, að þar vanti ekki íbúðir. Hv. þm. telur líklega, að sér komi ekki bændur né verkamenn mikið við nú sem stendur. Það er ekki nema liðugt ár síðan hann vildi í hinu heiðraða blaði sínu setja viðskiptabann á bændur hér austanfjalls, ef þeir höguðu sér ekki eins og „villu“eigendurnir vildu. Sem betur fór varð ekkert úr því, en uppástungan sýndi, að ekki var sterkur samúðarstrengur þarna á milli.