08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

24. mál, vega og brúargerð

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Fyrir hönd samgmn. hefi ég ekki önnur skilaboð að flytja en þau, sem felast í nál. á þskj. 556. Svo sem kunnugt er, voru brúarl. frá 1919 endurskoðuð á síðasta þingi, og var þá felld niður heimild fyrir stj. um lántökur vegna brúarbygginga. En því er þetta frv. fram komið, að stj. gerir ráð fyrir að þurfa að taka 60 þús. kr. lán vegna væntanlegra brúarbygginga. En í hv. Ed. hefir frv. tekið allmiklum stakkaskiptum, svo að það er nú líka látið ná til nokkurra vegagerða auk brúargerðanna, sem fyrirhugaðar eru næsta ár, en ríkissjóður þykist tæplega geta sinnt að öðrum kosti. Úr upphaflegu 60 þús. kr. heimildinni er nú orðin heimild fyrir hálfri milljón. En þar sem þau héruð, er hlut að eiga, hafa safnað talsverðu fé í þessu skyni og hafa heitið að leggja það fram til þessara framkvæmda, lítur n. svo á, að rétt sé að mæla með þessari heimild. Ekki sízt er þörfin brýn, þar sem búast má við miklu atvinnuleysi á næsta sumri, og því full þörf atvinnubóta. Ég þykist ekki þurfa að fara um þetta fleiri orðum, en vísa til nál. á þskj. 556.