03.04.1933
Efri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Frsm. (Magnús Torfason):

Það er vitanlega engin sérstök ánægja að þurfa að burðast með frv. eins og þetta, en um það má segja, að þörfin rekur á eftir, og sú þörf verður ríkari með hverjum deginum, sem líður. Það er víst, að fréttir hafa borizt víða að til n., síðan hún settist á rökstóla, um getuleysi sveitarfélaga, og þær sýna, að þetta getuleysi er miklu átakanlegra en búizt var við. Það eru ýmsar ástæður, sem valda því, en síðasta fréttin, sem n. hefir haft viðvíkjandi þessu, bendir á það, að þetta getuleysi sveitarfélaganna mun a. m. k. sumstaðar stafa af því, að það er blátt áfram komin óáran í mannfólkið. Að öðru leyti er það aðallega tvennt, sem veldur því, að þörf er á slíkri lagasetningu sem þessari. Annað er það, að sveitarfélög hafa of litla tekjustofna. Það er treyst svo mikið á þennan eina tekjustofn, sem flest sveitarfélög verða að notast við, að hann er alls ónógur. Hinsvegar er það vitanlegt, að byrðarnar liggja misþungt á sveitarfélögum. Ef því ætti að stinga á sullinum, þá lægi vitanlega beint fyrir að snúa sér að þessu tvennu, auka tekjustofnana og koma meiri jöfnuði á byrðarnar. En stj. hefir ekki séð sér fært að stinga á sullinum, enda er það sjálfsagt vandamál mikið og erfitt að komast að réttri niðurstöðu á þessum miklu byltinga- og breytingatímum, sem nú standa yfir. Stj. hefir nú samt viljað sinna þessu máli og reyna að bæta nokkuð um, og verð ég, eftir því sem við horfir, að vera þakklátur fyrir það. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þennan inngang lengri, einkum þar sem ég veit, að þetta mál hefir komið svo við alla hv. þdm., að ég er ekki í vafa um, að þeir hafa gert sér grein fyrir því og athugað frv. með fullri nærgætni.

N. hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að láta frv. ganga fram að mestu leyti óbreytt. Þær breyt., sem n. hefir stungið upp á, að gerðar verði, eru ýmist til samræmis eða þá til að ganga lítið eitt lengra en gert er í stjfrv. Ég held satt að segja, að hefði frv. verið samið nú, hefði stj. komizt að þeirri niðurstöðu, að full þörf sé á að taka dýpra í árinni en gert hefir verið í frv. hennar.

Ég skal sérlega geta þess, að aðalatriðið í þessu frv. er það, að sveitarfélag verði ekki gert gjaldþrota, og ég álít, að það sé ekki einungis vel farið, heldur einnig sjálfsagt. Það verður að finna önnur ráð til að lagfæra það, sem laga þarf, ef sveitarfélag kemst í fjárþröng, heldur en að fara gjaldþrotaleiðina. Þetta ákvæði er svo mikils virði, að þótt það sé sýnt, að þetta frv. ráði alls ekki fulla bót á vandræðum sveitarfélaga, þá er frv. vegna þessa ákvæðis það mikils virði, að rétt er að samþ. það.

Þá skal ég snúa mér að þeim einstöku brtt. Skal ég þá geta þess, að 1. brtt. mun ekki vera annað en leiðrétting á prentvillu. Það mun hafa verið tilætlunin að vitna þar í 82.—89. gr. skiptal., en ekki 81.—89. gr.

Þá eru brtt. við 10. gr., 2. og 3. málsl. A-liðurinn er að mestu leyti orðabreyt., en í b-liðnum felst aftur á móti sú efnisbreyt., að þegar svo stendur á sem segir í þeirri gr., greiðist hvorki innheimtulaun af söluandvirði né gjöld til ríkissjóðs, þar sem í frv. er aðeins gert ráð fyrir, að ekki skuli greiða innheimtulaun af söluandvirði. Það virðist sjálfsagt, fyrst einstakir menn eiga ekki að fá þessa lögmæltu þóknun sína, þá eigi ríkissjóður ekki heldur að auðgast á þessu. Það er því í fullu samræmi við frv., að þetta falli niður.

Í c-liðnum felst nýmæli frá n., sem er þess efnis, að þegar kemur til þess að selja fasteignir, sem ætlaðar eru til almennra afnota, þá skuli þær virtar af 2 mönnum, og nefni hlutaðeigandi veðhafi annan og sveitarfélagið hinn. Þetta virðist nauðsynlegt til að fyrirbyggja það, að einstakir menn geti hagnýtt sér vandræði sveitarfélags. Ég segi þetta m. a. út af því, að mér er kunnugt um það, að nú liggja fyrir fjárnám í skólahúsi og þinghúsi. Er ljóst, hvað verða á, að viðkomandi maður, sem veðið hefir, ætlar sér að kúga sveitarfélagið til að leigja húsið aftur af sér. Svona lagað fer algerlega í bág við ætlun og tilgang þessa frv. Nú er þetta ákvæði dálítið úr leið frá því, sem venjulega gerist, en það er þó bót í máli, að fái viðkomandi veð hafi skuld sína ekki greidda, þá fær hann þó nokkra umbun samkv. 13. gr., þar sem ríkissjóður á að leggja fram nokkurt fé til greiðslu á skuldinni.

Ég hygg, að rétt sé, að þetta ákvæði, sem ég hefi nú minnzt á, verði samþ. Reyndar er mikil helgi á veðkröfum og forgangskröfum hér á landi, en ég vil geta þess, að sú helgi hefir nú rýrnað yfirleitt út um heim, og hefir jafnvel komizt svo langt, að merkir lögfræðingar halda því fram, að veðréttur og forréttindakröfur eigi alls ekki að vera til. Virðist því engin goðgá, þó að reynt sé að koma þessu svo fyrir, að veðréttur í slíkum tilfellum verði ekki til þess að íþyngja sveitarfélögum, og gera þeim jafnvel ófært að nota þessi lög.

Það er líka aðgætandi í þessu sambandi, að þessi sala á fasteigninni á að fara fram áður en til mála getur komið að leita samninga um venjulegar skuldir, svo að þessháttar skuldir geta orðið skilyrði fyrir, að þessar ráðstafanir komist á.

Þá hefir n. samið brtt. við upphaf 11. gr. N. þótti rétt að krefjast ekki frekara en að skuldheimtumenn, sem ráða yfir meiri hluta skulda, samþ. tilboðið. Ástæðan til, að þetta er komið fram, er m. a. sú, að þegar um stofnun er að ræða, sem hefir viðskipti við marga, þá er afarerfitt að ná til manna. Sveitarfélög geta haft skuldaskipti við mýmarga menn. En ef orðalag frv. eins og það er nú ætti að standa, þá gæti það orðið til þess, að viss tala manna, sem ættu ekki nema örlítinn part af skuldunum, sem til greina koma, gæti ráðið þessu. N. leit því svo á, að það væri rétt að rýmka þetta, og vitnar þar til þess, að það ætti ekki að vera hallað rétti þessara manna, þar sem uppbót kemur í staðinn.

Þá eru brtt. við 13. gr., sem eru ekki stórvægilegar, sem sé, að í staðinn fyrir „lögmaðurinn í Reykjavík“, sem á að samþ. eftirgjafir, sem ráðh. leggur til, komi „sýslumaður sveitarfélags, er hlut á að“. Oss fannst fullt eins eðlilegt, að einhver maður úr héraðinu sjálfu athugaði þetta, og það því fremur, sem það er alls ekki víst nema þetta geti að meira eða minna leyti snert sýslufélagið sjálft.

Þá hefir n. lagt til, að niður falli e-liður í niðurlagi 13. gr., en þar er svo ákveðið, að sýslusjóður skuli greiða jafnmikið og ríkissjóður af hinu eftirgefna. Þessi brtt. er fyrst og fremst borin fram til samræmis, og virðist hún eðlileg í alla staði, því að það er vist, að ef sveitarfélag þarf að notfæra sér þessi 1., þá mun ekki vera mikið í handraðanum hjá viðkomandi sýslufélagi, og mundi því yfirleitt vera þar ullar í geitarhús að leita.

Síðasta brtt. virðist sjálfsögð. Í 16. gr. er gert ráð fyrir, að þegar svo stendur á sem í frv. segir, þá megi sveitarfélag ekki inna af hendi önnur gjöld en þau, sem þarf til að halda uppi lögboðinni starfsemi, svo að sæmilegt sé eða samningsbundnar greiðslur af fasteignaveðslánum. Við þetta vill nú n. bæta „og forgangsskuldum“. Lítur hún svo á, að þar eigi eitt yfir að ganga. Það er svo með gjaldþrotabú, að ef það er vitað, að þau geta greitt eitthvað upp í almennar skuldir, þá þykir sjálfsagt að greiða forgangsskuldir þegar.

Að svo mæltu vil ég óska þess, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem n. hefir lagt til.