03.04.1933
Efri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vil leyfa mér að þakka n. fyrir góða afgreiðslu þessa máls, og þó að hún hafi komið með nokkrar brtt., sem ég get að mestu leyti gengið inn á, þá get ég ekki annað sagt en að hún hafi tekið þessu máli vel.

Hv. frsm. fór fyrst nokkrum almennum orðum um vandræði sveitarfélaga, og skal ég ekki fara langt út í það. Í því, að þetta frv. er borið fram, liggur viðurkenning fyrir þessum vandræðum, og í afgreiðslu n. á frv. liggur viðurkenning fyrir því, að n. sé fullkomlega ljóst, að þessi vandræði eru nú fyrir hendi.

En að því leyti, sem hv. þm. minntist á tekjustofna sveitarfélaga og sagði, að þeir væru of litlir, þá er því til að svara, að sveitarfélögin hafa þó þann tekjustofn, sem mest hefir þanþolið, er teygjanlegastur, þar sem þau leggja á menn eftir efnum og ástæðum. Ef á að gera bót á þessu og fá aðra tekjustofna, þá skilst mér, að það yrði að koma frá einhverjum öðrum en hreppsbúum, og getur komið fyrir, að slíkt sé réttmætt, en þó er það frekar undantekning. Þá eiga þau sveitarfélög, sem treysta sér ekki til að komast af með þennan tekjustofn, sjálf að fitja upp á að fá slíkar tekjur. Þetta hafa sumar sveitir þegar gert. Það getur t. d. verið eðlilegt, að Eyrarbakkahreppur fari fram á þetta, svo að tekið sé eitt einstakt dæmi.

Hv. frsm. minntist á, að það þyrfti að koma meiri jöfnuði á byrðar sveitarfélaga, og getur það verið rétt, en það er erfitt, því að það er ekki eingöngu, að jafna megi niður eftir krónutölu á hvern íbúa, heldur verður að taka tillit til mismunandi gjaldþols, og er svo að segja ómögulegt að gera það með löggjöf. En viðvíkjandi. þessu frv., þá er það rétt hjá hv. frsm., að tilgangur stj. er að gera upp beinlínis þau sveitarfélög, sem ekki geta staðið í skilum, á allsvipaðan hátt og gert er ráð fyrir í nauðasamninga.

Það er einnig rétt, að hér er ekki um gjaldþrotaskipti að ræða, því að það er ekki hægt að koma því við, en þessi aðferð, sem hér er stungið upp á, líkist ákaflega mikið nauðasamningum.

Um brtt. hv. n. mun ég fara fáum orðum. Við 1. brtt. geri ég enga aths., hún er alveg rétt. Þar er aðeins að ræða um leiðréttingu á ritvillu eða prentvillu. Sama er að segja um a-till. við 10. gr., ég hefi ekkert við hana að athuga. Við b-liðinn hefi ég heldur ekki neitt að athuga, en mér virtist, þegar ég samdi þetta frv., að hér væri um svo lítið að ræða. Ég man nú í svipinn ekki eftir öðrum gjöldum, sem í ríkissjóð renna og heyra undir þetta, en 5 kr. gjaldi fyrir árangurslaust uppboð (MT: 10 kr.). Ég segi þetta ekki af því, að ég sé á móti brtt., en ástæðan til, að ég tók þetta ekki með, var sú, að þetta er svo lítið, að það skiptir engu máli.

Þá er c-liðurinn. Við hann er ég dálítið hikandi. Tilgangur frv. er sá, að það veð, sem hvílir á þessum eignum, sem hér um ræðir og ekki verður greitt, þegar eignirnar hafa verið boðnar upp, falli burt. Nú er ég í vafa um, hvort slík veð falla burt, ef farið verður að eins og gert hefir verið ráð fyrir í brtt. Ég þekki ekki ákvæði, sem heimila að strika út veð í fasteignum, þegar framkvæmt er svona mat á eigninni. Segjum, að þetta mat sé fyrir neðan það, sem á eigninni hvílir. Þá hefir hlutaðeigandi embættismaður ekki heimild til að strika út það, sem umfram er. Það getur gengið, ef skuldareigandi vill gefa út nýtt veðbréf og afhenda það gamla, en vilji hann það ekki, heldur veðið áfram að hvíla á, og getur það orðið óþægilegt.

Það kemur í raun og veru ekki þessu máli við, hvað mikil helgi er á veðum, heldur það, hvað hægt er hér að gera eftir gildandi löggjöf.

Þær stofnanir sveitarfélaga, sem reistar eru til almennra nota, ættu ekki að vera veðhæfar. Hér er einkum um skólahús, kirkjur, þinghús og annað þess háttar að ræða, stofnanir, sem eru skilyrði fyrir því, að sveitarfélögin geti haldið uppi lögboðinni starfsemi. Það ætti helzt ekki að vera leyfilegt að veðsetja þær.

Þá leggur n. til, að upphaf 11. gr. orðist á þá leið, að nægilegt sé, að þeir skuldheimtumenn, sem ráða yfir meiri hl. þeirra skulda, sem tillögur aðstoðarmanns ná til, séu samþykkir till. Stj. hafði nú lagt til í sínu frv., að bæði tala skuldheimtumanna og upphæð skuldanna væri miðað við 2/3. Vildi ég gjarnan, að það ákvæði mætti standa, en vil þó ekki gera það að neinu kappsmáli. En mér finnast þó till. n. um þetta dálítið órýmilegar, þegar þær eru athugaðar í sambandi við það ákvæði 11. gr., að þeir skuldheimtumenn, sem ekki hafa komið svari sínu til aðstoðarmanns áður 3 mánuðir eru liðnir frá því hann afhenti till. sínar í póst, teljist samþ. þær. Þetta ákvæði var sett í frv. vegna þeirra örðugleika einmitt, sem hv. frsm. nefndi. Og mér er nær að halda, að þetta ákvæði eitt mundi nægja.

Þá vill n. gera þá breyt. á 13. gr., að kippa lögmanninum í Rvík út úr hinni svokölluðu ráðgjafarn. og setja í hans stað sýslumann þess sveitarfélags er í hlut á 1 það og það skiptið. — Það, sem fyrir stj. vakti við samningu þessa ákvæðis, var það, að skapa hér óhlutdrægan dómstól. En það er mikill vafi á því, hvort hlutaðeigandi sýslumaður getur talizt óhlutdrægur. Hann er oddviti sýslun. og á margan annan hátt viðriðinn málsins héraðs og sveitanna innan þess. Það mætti að vísu hafa það á móti lögmanninum hér í Rvík, að hann á bústað í einu slíku sveitarfélagi landsins. En þess ber að gæta, að hann hefir ekkert með þessi mál að gera hér, enda þótt hugsa mætti sér, að Rvík kæmist undir ákvæði þessara 1. Ég hefði því heldur kosið, að þetta væri eins og það er í frv., enda þótt ég geri það ekki að því kappsmáli, að ég vilji fórna frv. þess vegna.

Þá gerir n. till. um það, að síðari e-liður 13. gr. falli niður. Sá liður er um það, að hlutaðeigandi sýslusjóði sé gert að greiða jafnmikið og ríkissjóði af hinu eftirgefna. Þó getur ráðh., að fengnum upplýsingum, ef hann telur fjárhag sýslunnar svo þröngan, að greiðslan verði henni til verulegs hnekkis, gefið sýslunni þessa greiðslu eftir. — Það, sem fyrir stj. vakti með þessu ákvæði, var það, að það væru tveir aðilar, sem skylda bæri til að hjálpa þeim hreppsfélögum, sem kæmust í þrot. Og það væru sýslan og ríkið. Nú er ekki hægt að segja það, að sýslan standi ekki eins nærri að hjálpa sínum sveitarfélögum eins og ríkið. Og ég veit dæmi þess, að sýslufélög hafa talið sér skylt að hjálpa sveitarfélögum, sem komizt hafa í þröng, og gert það. Hér er nú ekki gengið lengra en það, að leggja til, að sýslan leggi fram jafnháan skerf og ríkið, og þó því aðeins, að hún sé svo stæð, að hún geti það. Það getur líka verið, að ríkissjóður eigi erfitt með að leggja fram sinn hluta. Þetta er uppbót til skuldheimtumanna, og þau hlunnindi liggja í þessu, að viðkomandi sveitarfélag geti haft sig upp, orðið sjálfstætt og til styrktar sínu sýslufélagi. Ég lít á þessa till. sem tilraun, kannske eðlilega, til að ýta þessum gjöldum frá sýslusjóðunum og yfir á ríkissjóðinn. En vitanlega verður hver stjórn að standa á móti slíku. Ríkissjóður er oft ekki svo staddur, og einmitt ekki nú, að ástæða sé til að vísa öllum gjöldum yfir á hann. Ég veit að vísu, að sýslusjóðirnir sumir hverjir eru ekki vel staddir. En ég veit líka, að sumir þeirra standa sig prýðilega og miklu betur en ríkissjóður. Er því engin goðgá að skylda slíka sýslusjóði til að hlaupa undir bagga að hálfu leyti, á móti ríkinu, ef 1 eða máske 2 hreppar innan sýslunnar verða illa staddir og þurfa að fá aðstoð þessara 1. Ég óska því eftir, að c-liðurinn fái að standa. Ég tel enga sanngirni mæla með því, að hann sé felldur niður.

Þá á ég eftir að minnast á síðustu brtt. n., sem er við 16. gr. frv. Vill n. bæta aftan í gr. orðunum: „og forgangsskuldum“. Ég verð nú að segja það, að ég er ekki á því hreina um það, hvaða skuldir n. á við. Hér getur aðeins verið um að ræða lögmæltar forgangsskuldir í eignum sveitarfélaga. Ég veit ekki, hvernig þær eru, og vildi því gjarnan heyra hv. frsm. n. upplýsa það atriði. Skal ég svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni.