07.04.1933
Efri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þegar frv. þetta var undirbúið, var tilgangurinn sá, að það næði bæði til sveitarfélaga og bæjarfélaga, af því að svipaðar líkur þóttu vera fyrir því, að hvortveggja gætu lent í fjárþröng. En ef það er virkilega svo, að umboðsmenn bæjarfélaganna áliti, að það sé betra fyrir þau að standa utan við verndarákvæði þessara laga, þá hefi ég ekkert á móti því. En ég hygg, að talsvert hafi bólað á fjárhagsvandræðum hjá sumum bæjarfélögum hér á landi, sem þeim getur stafað hætta af. En vitanlega er hægt að setja svipaða löggjöf fyrir kaupstaðina út af fyrir sig, þó ég álíti eðlilegast, að sömu lög nái yfir sveitarfélög og bæjarfélög í þessu efni. Ég geri það samt ekki að neinu kappsmáli.

Hvað það snertir, að þetta frv. geti spillt lánstrausti bæjarfélaga, þá geng ég ekki inn á það. Og út af því, sem hv. 1. landsk. benti á við 2. umr., að bæjarfélög mundu ekki njóta sömu aðstöðu og áður gagnvart lánardrottnum, ef þetta frv. yrði að lögum, þar sem bæjar- og sveitarfélög hefðu jafnan verið talin í 1. flokki ásamt fasteignatryggingum, þá vil ég benda á, að sú sök liggur hjá sveitar- og bæjarfélögunum sjálfum. Þau hafa sjálf rýrt sitt traust með því að fara ekki nógu varlega, og af því að þau hafa í einstökum tilfellum misnotað það traust, sem þau höfðu. En þetta frv. rýrir hvorki lánstraust bæjar- eða sveitarfélaga fremur en lögin um gjaldþrot og nauðasamninga rýra álit eða lánstraust einstakra manna. — Þó að hv. allshn. hafi ekki enn mælt fyrir brtt. sinni á þskj. 346, skal ég lýsa því yfir, að ég er henni samþykkur, og vil ég benda á það, sem þar er tekið fram, að það vantaði í frv. heimild til að strika út í veðmálabók það fasteignarverð, sem eftir mati er umfram veðskuldir, er á eigninni hvíla. Ég vil taka það skýrt fram, að meiningin er sú, að það, sem verður afgangs samkv. mati á eigninni, eins og það er ákveðið eftir fyrirmælum frv., það kemur til greina sem almenn skuld. (JónÞ: Það stendur hvergi í frv.). Jú, það stendur þar óbeinlínis, þar sem tekið er fram, að það skuli fara fram sala á veðinu áður en aðstoðarmaðurinn býr til yfirlit sitt og gerir till. um samninga eða eftirgjöf skulda.