07.04.1933
Efri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég ætla að leyfa mér að mæla með brtt. allshn. á þskj. 346, sem hæstv. dómsmrh. hefir nú minnzt á og lýst yfir, að hann væri samþykkur.

Það var réttilega tekið fram af hæstv. ráðh., að það þarf ekki sérstakt ákvæði í lögin um, að það, sem eftir verður af matsverði hinnar veðsettu fasteignar samkv. 10. gr. frv., falli ekki niður sem almenn krafa; þegar af þeirri ástæðu, að þá þyrfti vitanlega að taka það sérstaklega fram. En hér er aðeins um undantekningarlög að ræða, og verða þau því aldrei talin víðtækari en það, sem liggur beinlínis í þeim. — Ég skal geta þess, að n. hefir sérstaklega falið mér að lýsa þeirri skoðun sinni, að hún lítur svo á, að afgangurinn geti alls ekki fallið niður sem almenn skuld.

Út af brtt. hv. 1. landsk. skal ég lýsa því yfir, að n. getur ekki fallizt á að taka hana til greina. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að það er alls ekki vist nema einhver bæjarfélög þurfi á þessum ráðstöfunum að halda, jafnvel áður en langt líður. Og svo mikið er víst, að til eru þau bæjarfélög hér á landi, sem eiga langt í land með að láta eignir sínar hrökkva fyrir skuldum. Hv. 1. landsk. gat þess, að fjárhagur bæjarfélaga væri miklu víðtækari og fjölþættari en hreppsfélaga, og þess vegna þyrfti að ráða fram úr örðugleikum þeirra með sérstökum lögum. Ég geri ekki ráð fyrir, að svo sé um bæjarfélögin yfirleitt. En það má vel vera, að ef höfuðborgin, Reykjavík, þyrfti á nauðasamningum að halda, þá yrði að gera það með sérstökum lögum.

Sum bæjarfélög eru ekki stærri en sveitarfélög, og gæti þessi löggjöf því a. m. k. orðið góður undirbúningur fyrir bæjarfélög áður en sérstök lög yrðu sett þeim til handa. Ef það á að þjaka einstökum bæjarfélögum með kröfum og málssóknum, gætu bæjarstjórnir látið þau skríða undir þessi lög þangað til frekari ráðstafanir verða gerðar, og bjargað þeim þannig í bili. Það er öllum vitanlegt, að fjárhagur þjóðanna yfirleitt, og ekki sízt okkar litlu þjóðar, er talsvert á hverfanda hveli, fyrir utan það, sem landbúnaðarkreppan sverfur nú að í sveitunum. Og því ber ekki að neita, að í þeim orðum, sem ég lét falla í ræðu við 2. umr. þessa máls um óáran í mannfólkinu, þá átti ég fremur við kaupstaðabúana en sveitafólkið. En ég neita því ekki, að þessi óáran er líka að læðast upp í sveitirnar. Það getur vel verið, að ýms bæjarfélög þurfi áður en varir að nota þann rétt, sem þessi lög veita. Það mun rétt vera, að n. hefir skotizt yfir, að í niðurlagi 5. gr. er aðeins talað um hreppa, en eigi bæjarfélög. Og út af þeirri bendingu hv. 1. landsk. vil ég leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt. við 5. gr., að í stað „hreppnum“ komi: sveitarfélaginu. Vil ég svo afhenda hæstv. forseta þessa till., með óskum um, að þetta frv. verði samþ. með brtt. allshn.