07.04.1933
Efri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það væri ekki mikil ástæða til þess fyrir mig að hafa á móti því, að frv. þetta verði lögfest á þann hátt, að það nái einnig til kaupstaðanna, ef rétt væri það, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að frv. rýri ekki meira gjaldþol og lánstraust kaupstaðanna heldur en gjaldþrotalögin lánstraust einstaklinganna. En þetta er bara ekki rétt hjá hæstv. ráðh., og skal ég gera grein fyrir því, að svo er.

Það eru þá fyrst og fremst mörg ákvæði frv., er gera það að verkum, að skuldheimtumanni verður erfiðara að innheimta skuld, er hann á hjá sveitarfélagi, heldur en hjá einstökum manni. T. d. að eignir sveitarfélaga verða samkv. frv. ekki teknar til gjaldþrotaskipta. Svo er um fleira. Ég sé mér því ekki fært að greiða atkv. með þessu frv., vegna þeirra takmarkana, sem það setur um veðrétt í fasteignum sveitarfélaga, sem ætlaðar eru til almenningsnota og stofnaðar með það fyrir augum. Til þess að gefa hv. d. dæmi um þetta, skal ég nefna rafmagnsveitu Rvíkur. Hún er byggð á þann hátt, að til hennar hafa verið tekin tvö lán, sem hvíla á 1. og 2. veðrétti í fyrirtækinu sjálfu, ásamt öðrum tryggingum, og búast má við, að þetta fyrirtæki þurfi að stækka, og þá á þann hátt, að lán verði tekið með veði í fyrirtækinu sjálfu. Ekki verður um það deilt, að fyrirtæki þetta er til almenningsnota, því almenningur fær rafmagn hjá rafmagnsveitunni. Þegar nú farið verður að leita eftir láni til þessa, þá munu þeir, sem líklegir væru til að lána féð, líta á ákvæði þessa frv., ef það verður gert að l., og þá sjá þeir, að þeir kostir, sem veðhafa eru gerðir, ef kaupstaðurinn stendur ekki í skilum, eru þeir, að mat skal fara fram á eign þeirri, sem bundin er í fyrirtækinu, og það mat fer svo fram, að kaupstaðurinn nefnir einn mann, en veðhafi annan til að framkvæma það. Verði svo ágreiningur um matsverðið, sker ráðh. úr. Og fyrir það verð, sem þannig verður ákveðið, fær svo kaupstaðurinn veðið, en afgangur skuldarinnar verður strikaður út. Enginn mundi lána upp á þessi kjör, nema undanþága frá þessu ákvæði væri sett með l. Þetta er alveg óvanalegt ákvæði, og það er ekki rétt, að nokkur einstaklingur fái slíkan rétt, sem sveitarfélögin fá með þessu ákvæði, hvorki með gjaldþrotal. eða á neinn annan hátt. Ég veit, að ákvæði þessa frv. eru ekki hugsuð þeim kaupstöðum til meins, sem ekki eru í fjárhagsvandræðum. En enginn getur vitað, hvort þau kunni ekki að lenda í slíku einhverntíma. Og lánveitandi, sem fyrst og fremst hugsar um að tryggja fé sitt, verður að fá þær tryggingar, sem nægi, ef kaupstaðurinn lendir í vandræðum einhverntíma síðar. En slíka tryggingu fær hann ekki í fyrirtækinu sjálfu á venjulegan hátt, ef frv. þetta verður lögfest. Önnur ákvæði frv. þessa eru og svo vaxin, að þau veita skuldheimtumanni minni tryggingu fyrir að fá skuld sína greidda frá sveitarfélögum heldur en almenn löggjöf um gjaldþrot og nauðasamninga veitir þeim gagnvart hverjum einstaklingi. Svo er t. d. um ákvæði 11. gr., þar sem einfaldur meiri hl. bindur aðra skuldheimtumenn við till. aðstoðarmanns.

Ég álít því, að eðlilegast sé að undanþiggja kaupstaðina þessum 1., en gera um það sérstaka löggjöf, ef þá ber upp á sker, heldur en að rýra stórlega og jafnvel kippa algerlega fótum undan því, að kaupstaðirnir geti veðsett þær fasteignir, sem þeir eru að koma upp hjá sér vegna hagsmuna almennings. Fyrst hv. 2. þm. Árn. hefir komið fram með brtt. við 5. gr. frv. um að í stað orðsins „hreppnum“ komi: sveitarfélaginu, vil ég spyrja hann, hver meiningin sé með því ákvæði í 13. gr. c-lið, þar sem sýslusjóði er gert að skyldu, ef ráðh. telur fært, að greiða jafnt og ríkissjóður af því, sem eftir er gefið? Hvaða sýslusjóður er það t. d., sem á í hlut, ef Hafnarfjörður gefst upp, svo ég nefni eitthvert dæmi? — Ætli ekki hefði þurft skrifl. brtt. við það líka?