07.04.1933
Efri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég skal fyrst svara hæstv. dómsmrh. Ég vissi ekki til, að ég hefði látið nein orð falla í hans garð í umr. þeim, sem orðið hafa um frv. Mín skoðun er sú, að ef það er galli, að sýslumaður sé tilnefndur í síðari a-lið 13. gr., þá sé það ekki síður galli, að síðari c-liður sömu gr. sé látinn standa í frv. Mér finnst standa líkt á þarna. Og hv. 1. landsk. virðist vera búinn að gleyma því, að n. lagði til, að c-liðurinn í niðurlagi gr. félli niður. Ósamræmið, sem í þessu felst, tekur því ekki til mín.

Ég vík aftur að því, sem skilur milli mín og hv. 1. landsk. í þessu máli, sem er það, að hann trúir ekki á, að menn í opinberri stöðu vinni þetta verk réttlátlega. En ég geri það. Þessir menn eru til þess kvaddir að sjá um, að veðhafar fái sinn rétt. Og réttur veðhafa er sennilega betur tryggður með þessu ákvæði en verið hefir. Ég hefi bent á, að það er ekki nokkur vörn gegn manni með veðrétt móti því, að verðið sé sprengt upp. Og þegar slík vandræði steðja að, verður vitanlega eitthvað undan að láta.

Ég hefi annars ekki tekið till. hv. 1. landsk. alvarlega, vegna þess að hann er á móti frv. yfirleitt. Hann sagði við 2. umr. málsins, að þetta frv. væri fram komið til þess að losa sveitarfélög við að greiða skuldir sínar, og er þá von, að hann taki sárt til bæjarfélaganna.