07.04.1933
Efri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins að bera af mér sakir, sem á mig hafa verið bornar. Ég hefi aldrei sagt við fyrri umr., að með þessu frv. væri löggjöfin að gera hreppunum auðvelt að komast hjá skuldagreiðslu. (MT: Ég skrifaði þessi ummæli hv. 1. landsk. niður orðrétt um leið og hann talaði þau). Ég hefi aldrei sagt þetta og veit betur, hvað ég hefi talað, en hv. 2. þm. Árn. Það er alveg rétt hjá hv. 4. landsk., að ákvæði 10. gr. verða þyrnir í augum skuldheimtumanna. Þau eru alveg ótæk fyrir kaupstaðina. En ef á að fara að gera greinargerð eftir fasteignamati, þá er það alveg óviðeigandi. Fasteignamat á húsi er enginn mælikvarði á verðmætið í heild. Ég þykist samt skilja, hvað vakti fyrir hv. n. Hún hefir ekki haft fyrir augum atvinnufyrirtæki, heldur aðeins skóla og aðrar húseignir sveitarfélaga. En n. hefir ekki tekizt að orða þetta á réttan hátt. Væri að mínu áliti betra að breyta orðalagi frv. heldur en að koma með viðaukatillögur.