10.04.1933
Efri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég vil þakka n. fyrir það, að hún hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að undanskilja kaupstaðina í þessari löggjöf. Ástæður mínar fyrir því, að rétt væri að gera svo, eru ekki þaðan runnar, að mér sé þetta metnaðarmál fyrir hönd Rvíkurbæjar, heldur aðeins þær, að ég álít óhentugt fyrir kaupstaðina, að þessi löggjöf verði látin ná til þeirra. Ég get ekki fallizt á, að það sé rétt hjá hæstv. dómsmrh., að lögin gildi eingöngu um þau sveitarfélög, sem komin eru í þrot, því að 1. gilda að vissu leyti um sérhvert sveitarfélag, með því að þau koma til framkvæmda strax og sveitarfélagið er komið í þrot, en við allar lánveitingar t. d. af hálfu fjársöfnunarstofnana eins og tryggingarfélaga, er það föst regla, að félögin láta rannsaka, hver ákvæði löggjafarinnar koma til greina, ef skuldunautur getur ekki staðið í skilum. Hlýtur svo að verða litið á, að þessi löggjöf nái einnig til kaupstaðanna, af því að fyrir þá getur komið það ástand, sem lætur l. koma til framkvæmda, og álít ég það varhugavert, að kaupstaðirnir verði settir undir sérlöggjöf, sem sviptir lánardrottna þeirra og veðhafa þeim réttindum, sem þeir hafa samkv. almennri löggjöf. Það er og heldur ekki rétt, að kaupstaðir og hreppsfélög séu hliðstæð, þótt þau séu það að sumu leyti, því að kaupstaðirnir eru víðtækari og hliðstæðari sýslufélögunum, sem ekki eru tekin upp í frv., svo að það er ekkert ósamræmi í því, þótt kaupstöðunum væri sleppt líka.