12.04.1933
Neðri deild: 51. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 4. þm. Reykv. óskaði eftir upplýsingum um það, af hverju vandræði sveitarfélaga stöfuðu, og er því til að svara, að ástæðurnar eru margar og margvíslegar í hinum einstöku tilfellum, en allt stendur þetta í sambandi fyrst og fremst við kreppuna, sem nú ríkir, því að þótt það hafi að vísu áður komið fyrir, að hreppsfélag kæmist í vandræði, hefir það þó aldrei orðið jafnalmennt og nú er, vegna hins almenna ástands í landinu. — Ef leita á að fyrstu orsök þessa meins, verður erfitt að svara, og þótt fátækraframfærið sé að vísu þungur baggi á flestum sveitarfélögum, eru margir gjaldaliðir aðrir, sem ekki eru betri. Sum sveitarfélög hafa t. d. komið upp hjá sér dýrum stofnunum eins og raforkuveitum, á dýrum tímum, sem gerir það að verkum, að þau geta ekki selt rafmagnið einn sinni fyrir kostnaðarverði nú vegna verðfallsins, og er þetta sumstaðar aðalástæðan fyrir vandræðum sveitarfélaganna, sem þau hafa komizt i. En það út af fyrir sig skiptir raunar engu máli, af hverju vandræði sveitarfélaganna stafa. Aðalatriðið í þessu sambandi hlýtur að verða það, að bæta úr vandræðunum, sem sveitarfélögin þannig eru komin i. Með þessu frv. hefir sú leið verið farin í þessum efnum, sem svipuð er nauðasamningaleiðinni fyrir einstaklinga, sem komast í þrot. Sveitarfélögin verða ekki tekin og seld á uppboði. Þeirra aðaleign er gjaldþolið, sem ekki er gott að meta. Þótt hægt sé að gera skuldirnar upp, verður ekki hægt að gera eignirnar upp á móti og úthluta þeim meðal skuldheimtumannanna. Þetta gerir það að verkum, að sveitarfélögin verða ekki tekin til gjaldþrotaskipta. Af þessum ástæðum var leið nauðasamninganna valin, og er frv. á henni reist, með þeim einum breyt., sem af því leiddi, að hér er um löggjöf að ræða, er gildi um sveitarfélög, en ekki einstaklinga.

Ég get ekki séð, að þessi leið geti orðið til að gefa sveitarfélögunum undir fótinn með ógætilega fjármálastjórn. Þessi löggjöf, sem hér er farið fram á að lögleiða, gefur sveitarfélögunum ekki frekar undir fótinn um slíkt en löggjöfin um nauðasamninga gerir það að því er einstaklingana snertir. Og sama er að segja um lánstraustsspjöllin, sem þessi löggjöf á að hafa í för með sér fyrir sveitarfélögin. Hér fyrr meir voru hreppsfélögin að vísu álitin beztu skuldunautar, sem völ væri á, og talin hliðstæð fyrsta veðrétti í fasteign. En nú er þetta liðin tíð, og hreppsfélögin ganga nú ekki lengur fyrir með lán, nema síður sé sum þeirra. Ef um er að ræða spjöll á lánstrausti, eru þau því þegar orðin, svo að þau geta því ekki orðið af völdum þessarar löggjafar. Og aðalatriðið í þessu sambandi er, eins og ég áður sagði, að bæta úr vandræðunum, sem þegar kreppa að sveitarfélögunum. Verður að kippa þessu í lag, hvort sem í hlut eiga einstaklingar, félög eða opinberar stofnanir, sem hreppsfélögin að vissu leyti eru. Og fyrst ekki eru peningar fyrir hendi til að greiða skuldirnar, verður að gera þær upp og strika út, eftir því sem athugun á því bendir til, hverjar líkur eru til, að skuldirnar verði greiddar. Og ég tel það einn af beztu kostum frv., hvað varlega er farið einmitt í þessu efni.

Hv. 1. þm. N.-M. fór nokkrum orðum um vandræði sveitarfélaganna, og er satt, sem hann sagði, að það var ekki í fyrsta skiptið nú, sem hann vék að því. hve fátækraframfærslan kemur misjafnt niður. Hv. þm. hefir oft vikið að þessu máli áður og fært rök að þessu. Út af þessu vil ég minna á það, að þingið í fyrra samþ. að hlaupa undir bagga með þeim sveitarfélögum, sem harðast verða úti í þessum efnum. Stj. hefir ekki hugsað sér að fara lengra í þessu en þá var gert, að svo komnu máli, en sjá, hvað reynslan segir um þetta. Það frv., sem hér liggur fyrir, er og um allt annað efni en þetta, enda mun það ekki hafa verið meiningin hjá hv. þm. N.-M. að blanda þessum tveimur málum saman, þótt hann leiddi að þessu athygli í þessu sambandi. Liggur og í augum uppi, að enda þótt fátækralöggjöfinni verði breytt, verður engu að síður að gera ráðstafanir til viðreisnar þeim sveitarfélögum, sem þegar eru komin í þrot.

Hv. þm. Vestm. spurðist fyrir um það, hverjar ráðstafanir stj. hefði hugsað sér að gera viðvíkjandi kaupstöðunum, ef þeir kæmust í þrot. Þessu er því til að svara, að stj. ætlaðist upphaflega til, að frv. næði einnig til kaupstaðanna, en umboðsmenn kaupstaðanna í Ed. lögðu á móti þessu, og var það fellt úr frv. samkv. tilmælum þeirra. Ég áleit þetta ekki rétt, m. a. af þeirri ástæðu, að sumir kaupstaðir, eins og Norðfjörður og Seyðisfjörður, eru minni en sum kauptúnin, sem falla undir þessa löggjöf, eins og er um Akranes. Er erfitt að sjá, hvers vegna gera á greinarmun í þessum efnum eftir því, hvort í hlut á kaupstaður, kauptún eða hreppur. Samkv. þessu hafði stj. hugsað sér, að sömu ráðstafanir gengju yfir kaupstaðina, ef þeir kæmust í þrot, eins og yfir hreppsfélögin, og að skuldirnar væru látnar falla sínum herra, úr því að ekki eru peningar til að greiða þær. Kvartanirnar ganga á báða bóga. Sveitirnar kvarta yfir því, að fólkið þyrpist í kaupstaðina, lendi þar á vonarvöl, svo að sveitirnar fái ekki risið undir fátækraframfærinu, en kaupstaðirnir kvarta hinsvegar yfir því, að þeir fái ekki endurgreitt það, sem þeir af þessum ástæðum verði að leggja út vegna sveitanna til fátækraframfærslunnar. Kvartanir hvorratveggja, bæjanna og sveitanna, hafa sjálfsagt við rök að styðjast að meira eða minna leyti.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. N.-M., að þetta frv. ber vitni um ömurlegt ástand, en frv. er, eins og fleiri frv. á þessu þingi, bein afleiðing þeirra tíma, sem við lifum á — tilraun til að draga úr ástandinu, því að sjálfu ástandinu er ekki á okkar valdi að létta af.