19.04.1933
Neðri deild: 53. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Pétur Halldórsson:

Ég ætlaði ekki með orðum mínum við fyrri hl. þessarar umr. að fara að segja nein stóryrði um framtöl í sveitum, en hv. 1. þm. N.-M. virtist þó hafa tekið þessi orð mín illa upp. En ég get ekki látið hjá líða að benda á það, að ekki er hentugt að leggja tekjuskatt til grundvallar um skyldu til fátækraframfæris, þegar heilt hreppsfélag greiðir ekki hærri tekjuskatt en lítill gjaldandi í Rvík, eins og ég tók eftir að átti sér stað fyrir fáum árum. Ef miða á getu hreppsfélags til fátækraframfæris við skatt þann, sem kemur úr hreppnum, þá er það valtur grundvöllur. Held ég ekki, að því verði haldið fram, að heilt hreppsfélag geti ekki fremur séð fyrir þurfalingum sínum en einn skattborgari í Reykjavík. En það, sem aðallega réð því, að ég stóð upp, var það, að mér þykir sú hugsun ótrúleg, að svo geti farið fyrir hreppsfélagi, að það geti alls ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar. Hreppsfélögin lifa undir eftirliti ríkisins, og ætti það að taka í taumana áður en svo væri komið.

Mun ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta við þessa umr.