02.11.1933
Sameinað þing: 1. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Baldvinsson:

Það er enginn efi á því, að það eru stórir gallar á kosningunni í Hafnarfirði, ef tekin eru þau tvö atriði, sem nú hefir verið rætt um. Þessi tvö meginatriði, bæði að bæjarfógetinn aðstoðaði við kosninguna, og að atkvæðin voru vottalaus, eru tvímælalaust brot á kosningalögunum. En það, sem Alþingi hefir oftast látið gilda í þessu efni, er eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ef sýnt þótti, að það hefði ekki áhrif á úrslit kosningar, þá hefir venjan verið sú, að kosningin hefir verið tekin gild, þó um ágalla væri að ræða. En í þessu tilfelli er ekki hægt um það að segja, og það er af því, að upplýst er, að bæjarfógetinn í Hafnarfirði neitar manni úr Alþfl. um aðstoð við kosningu, en aðstoðar síðan sex kjósendur úr Sjálfstfl. Það er ekki gott að segja, hver áhrif það getur haft, þegar annar flokkurinn stendur í þeirri trú, að það þýði ekki að fara með þá á kjörstað, sem ekki geti kosið án aðstoðar.

Bæjarfógetinn í Hafnarfirði segist hafa spurzt fyrir um það hjá dómsmálaráðuneytinu skömmu eftir að hann vísaði þessum eina manni frá, hvort leyfilegt væri að aðstoða við kosningu, og kveðst hann hafa fengið þær upplýsingar, að það væri leyfilegt, og ennfremur hafði hann hringt til manns hér í Rvík, sem eitthvað hefir fengizt við kosningar, og fengið þær upplýsingar, að það tíðkaðist hér að veita aðstoð þeim, sem ekki gætu kosið hjálparlaust. En í kosningalögunum, nr. 58 frá 7. maí 1928, stendur það skýrt, þar sem talað er um fylgibréfið, að kjósandinn eigi að útfylla kjörseðilinn „aðstoðarlaust“. Og í 4. gr. er sagt: „Kjósandi skal aðstoðar- og þvíngunarlaust, í einrúmi og án þess að nokkur maður sjái, rita atkvæði sitt“. Ennfremur segir í 3. gr. sömu laga: „Kosning fer svo fram, að kjósandi ritar með eigin hendi með bleki nafn þess þingmannsefnis eða þingmannaefna, ef fleiri en einn á að velja í kjördæminu, er hann vill kjósa af þeim, sem í kjöri eru“.

En hvað viðvíkur hinu atriðinu, að því er snertir vitundarvottana, þá er það að segja, að í 4. gr. kosningalaganna segir: „Loks skulu vitundarvottar rita á fylgibréfið“. Er þá augljóst, að þetta atriði kosningalaganna er þverbrotið.

Þá er komið að því atriðinu, sem sumir vilja láta vera þungamiðjuna í þessu máli, og það er, hver áhrif þetta geti haft, að neita mönnum úr öðrum flokknum um aðstoð, en aðstoða menn úr hinum flokknum. Nú er það vitað, að atkvæðamunurinn var mjög lítill, og það er óupplýst, hve margir Alþfl.-kjósendur hafi farið burt úr bænum af því að þeir héldu, að þeir gætu ekki kosið. Held ég því, að rétt sé hjá Alþingi að vísa þessu máli til þeirrar kjörbréfanefndar, sem væntanlega verður kosin hér á þinginu, og láta hana athuga þetta mál í næði.

Að öllu þessu athuguðu get ég fyrir mitt leyti ekki séð, að hægt sé að taka þessa kosningu gilda, og álít ég, að hæstv. Alþingi beri skylda til að ógilda hana.