17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (1009)

36. mál, sala mjólkur og rjóma

Jakob Möller:

Ég verð að lýsa því yfir, að mér koma þessar brtt. hv. landbn. við l. frá síðasta þingi undarlega fyrir sjónir, með hliðsjón af nafni frv. Það heitir „um heilbrigðisráðstafanir um sölu mjólkur og rjóma“. Ég fæ ekki séð, að þær breyt., sem n. vill gera, snerti nokkuð heilbrigðisráðstafanir, heldur fjalli um allt annað, og þá það, sem vitanlega hefir alltaf verið tilgangurinn með þessum l., nefnilega einokun mjólkurbúanna á allri mjólkursölu til bæjanna. Það á að krefjast þess, að öll mjólk sé gerilsneydd, en ekki bara það, heldur að hún sé gerilsneydd í vissum mjólkurbúum. Ef um heilbrigðisráðstafanir væri að ræða, þá hefðu ákvæði l. frá því í fyrra, þau, að öll mjólk skyldi gerilsneydd, alveg dugað. Svo tekur n. til þess skrítna bragðs að setja reglur um kröfur þær, er gera skuli til sérstakra gerilsneyðingarstöðva, eftir að búið er að taka fram, að gerilsneyðingin skuli aðeins fara fram í þessum fullkomnu, viðurkenndu mjólkurbúum. Vitanlega hefði verið ástæða til þess að setja slíkt ákvæði í l. í fyrra, en varla nú. Frá mínu sjónarmiði eru þessar breyt. á lögunum því mjög svo óréttmætar, en ég er á móti einokun á mjólk eins og öðru.