18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (1023)

39. mál, ábúðarlög

Tryggvi Þórhallsson:

Það var aðallega þess vegna, sem ég kvaddi mér hljóðs, að ég óska að fá að tala við landbn. áður en hún afgr. þetta frv. Það er engum vafa undirorpið, að miklar afleiðingar geta orðið af því, ef þetta frv. yrði að l. Ef það væri samþ. í núv. mynd þess, þá gæti það orðið til þess að miklu leyti að kippa í burt möguleikanum til fasteignalánastarfsemi til landbúnaðarins.

Ég ætla ekki að fara út í að ræða þetta mikið nú, því að mér gefst tækifæri til þess í n. En það getur ekki komið til mála, að löggjöf eins og þetta verði samþ. á þessu þingi.

Ég vil taka það fram út af ræðu hv. þm., að það er af ókunnugleika mælt, ef hann heldur því fram, að Alþingi hafi ekki sýnt neina alúð í sambandi við löggjöfina um þetta efni. Fyrir nokkrum árum var skipuð mþn. til þess að fjalla um þetta mál. Hæstv. forseti þessarar d. var form. þeirrar n., sem lagði mjög mikla rækt við starf sitt. Síðan hefir málið legið fyrir þremur eða fjórum þingum og verið lögð í það ákaflega mikil vinna og alúð. Er því erfitt að saka þingið um, að það hafi ekki sýnt alúð og góðan vilja við afgreiðslu ábúðarlaganna.

Þeim ummælum, að bankarnir hafi með sínum ráðstöfunum orðið til þess, að jarðir lentu í niðurníðslu, og gengið mjög hart að bændum, vil ég algerlega mótmæla að því er snertir há lánsstofnun, sem ég veiti forstöðu. Það hefir undantekningarlaust verið tekið fyllsta tillit til þeirra manna, sem lent hafa í örðugleikum með jarðir sínar, enda býst ég ekki við, að hv. flm. hafi beint orðum sínum sérstaklega til Búnaðarbankans. Endurtek ég svo þá ósk mína að mega eiga tal við hv. landbn. áður en hún afgreiðir þetta mál.