16.11.1933
Efri deild: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (1028)

21. mál, rafveita Austur-Húnavatnssýslu

Flm. (Jón Jónsson):

Ég get ekki látið hjá líða að þakka hv. 1. landsk. hans góðu undirtektir undir þetta mál. Hitt get ég ekki fyllilega viðurkennt, að byrjun þessa fyrirtækis sé í of smáum stíl. Eins og sakir stóðu þegar ráðizt var í þetta verk, og standa enn, var ekki hægt að hafa byrjunina stærri vegna kostnaðarins við langar leiðslur. Hinsvegar var hagað svo til, að tiltölulega er kostnaðarlitið að bæta línu frá Blönduósi til Skagastrandar. Virkjunin var fyrst og fremst miðuð við þarfir kauptúnsins á Blönduósi. Aðeins virkjað það afl, sem þorpið myndi þurfa til sinna þarfa fyrst um sinn, og þá gert ráð fyrir, að iðnaður myndi bráðlega aukast þar að nokkrum mun.

Hvað viðvíkur því, sem hv. 1. landsk. minntist á frv. sitt um raforkuveitur frá 1930, þá veit ég ekki, hvort ástæða er til fyrir hann að harma svo mjög meðferð þess þá, því að það var pa tæplega tímabæri. Veitur úti um land voru þá svo kostnaðarsamar, að héruðin myndu vart hafa risið undir þeim. Sést það og bezt á því, að þarna norður frá, þar sem skilyrði fyrir sveitaveitur eru að dómi Geirs Zoega og Jakobs Gíslasonar hvað bezt á landinu, skuli veitan þó kosta svo mikið, að héraðið sér sér ekki fært að koma henni upp nema með stórfelldum styrk frá ríkissjóði. Jafnframt ber þess að gæta, að allt efni til þessara hluta hefir stórlækkað frá því 1930, vír t. d. allt að 2/3 hlutum. Þá hefir og síðan komið upp, að nota megi járnvír í leiðslur í staðinn fyrir koparvír, sem er miklu dýrari. Ennfremur hefir síðan verið varið töluverðu fé til frekari athugunar á þessum málum og því ýmislegt komið fram, sem þá var ekki þekkt, en er til stórra umbóta frá því, sem þá þekktist. Ég hygg því, að þingið 1930 hafi tekið upp þá réttu leið í þessu máli. Það beindi því inn á þá braut, sem ekki mun orka tvímælis, að hafi verið sú heppilegasta eins og þá stóðu sakir. Nú miðar því áfram á heilbrigðan hátt, og má vel vera, að sú verði raunin á, að tekið verði upp það fyrirkomulag þessara mála, sem hv. 1. landsk. hugsaði sér í fyrstu. — Vil ég svo enda þessi orð mín, eins og ég byrjaði þau, með því að þakka hv. 1. landsk. fyrir hans góðu undirtektir undir mál mitt.