20.11.1933
Efri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (1039)

21. mál, rafveita Austur-Húnavatnssýslu

Jón Jónsson:

Ég verð fyrst að leiðrétta hjá hv. þm. þetta um kjördæmin. Ég tel, að við eigum kjördæmi, þótt það sé stærra en kjördæmi annara þm. — En viðvíkjandi því ósamræmi, sem hv. þm. taldi eiga sér stað hjá mér, vil ég leyfa mér að taka það fram, að hér er alls ekki verið að fara fram á fjárveitingu frá ríkinu. Ég vona, að það sé útilokað, að þessi ábyrgð ríkissjóðs verði að fjárveitingu. Fyrst og fremst er gert ráð fyrir, að sýslusjóður sé í endurábyrgð. Og ríkisstj. getur heimtað aðrar tryggingar, sem hún telur gildar. Ég efast ekki um, að ríkisstj. gæti svo hagsmuna ríkissjóðs, að engin slík áhætta, að þetta verði að fjárveitingu síðar, komi til greina. Þetta mál horfir því mjög svo öðruvísi við en ýmsar till., sem hér hafa komið fram á þingi, sem fara fram á samtals um hálfrar millj. króna bein framlög úr ríkissjóði, eftir að við í vor vorum búnir að fullsetja á fjárl., og það án þess nú að sjá ríkinu fyrir neinum tekjum til viðbótar við það, sem fjárl. gera ráð fyrir. Þetta finnst mér mjög ógætilegt. En með þáltill. minni er farið fram á, að ríkið gangi í áhættulausa ábyrgð, og ekkert annað.