20.11.1933
Efri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (1041)

21. mál, rafveita Austur-Húnavatnssýslu

Frsm. (Magnús Jónsson):

Út af því, sem hv. 2. landsk. sagði, vil ég aðeins geta þess, að fjvn. hefir ekki litið svo á, að hér væri um fjárveitingu að ræða. Að n. varð einróma því meðmælt, að þáltill. yrði samþ. óbreytt, stafaði af því, að n. leit svo á, að hér væri svo um hnúta búið, að heita mætti, að hér væri einungis um form að ræða með þessari ríkisábyrgð, sem væri gert til þess að hjálpa þessu fyrirtæki til að fá lán með betri kjörum en það mundi annars geta fengið. Annars er það ekki fyrirsjáanlegt, að þessi ábyrgð muni kosta ríkið neitt.

þetta er algengt, að ríkið gangi í ábyrgðir fyrir fyrirtæki, jafnvel sem því dettur ekki í hug að styðja með einum einasta eyri. Eins og hv. flm. gat um, er hér um endurtryggingar gegn ríkisábyrgðinni að ræða, bæði sýslutryggingu og aðrar tryggingar. En sérstaklega vil ég fyrir mitt leyti draga það fram, að fyrirtækið virðist vera byggt á heilbrigðum grundvelli, svo að það er ákaflega ólíklegt, að fyrirtækið borgi sig ekki. Þetta finnst mér vera mjög mikið aðalatriði í málinu. Ég tek þetta fram af því, að ég vil ekki, að þessi ríkisábyrgð sé skoðuð sem vilyrði frá fjvn. um, að hún mæli með fjárveitingum á þessu þingi, þó að vitanlega taki hún afstöðu til mála í hvert skipti, þegar þau eru fyrir hana lögð Í þessu atriði út af fyrir sig sér hún ekki, að farið sé fram á fjárveitingu.