20.11.1933
Efri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (1042)

21. mál, rafveita Austur-Húnavatnssýslu

Jón Baldvinsson:

Ég var búinn að marglýsa því yfir, að ég ætlaði að styðja þessa þáltill. En út af því, sem hv. frsm. sagði, vil ég bæta því við, að ég býst við því, að þeir, sem biðja á þessu þingi um ríkisábyrgðir, muni telja farið fram á þær gegn sæmilegum tryggingum og að ríkisábyrgðin sé í þeim tilfellum líka aðeins formið. Það er sagt venjulega, og ég trúi því, að í þessu tilfelli sé aðeins um form að ræða, eins og hv. þm. sagði.

Í þessu sambandi vil ég minna á, að ekki varð Framsfl. skotaskuld úr því að telja það meira en formið tómt, þegar um var að ræða ríkisábyrgð fyrir Sogsvirkjunina. En þeim, sem til þekkja, blandast ekki hugur um, að það sé fullljóst, að miklu sterkari lýkur eru fyrir því, að hún beri sig heldur en þetta fyrirtæki. Þetta vildi ég aðeins benda á, því að til samræmis ættu nú auðvitað að gilda sömu reglur og þá.