04.12.1933
Neðri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (1085)

52. mál, varðskip landsins

Frsm. (Jakob Möller):

Það má til sanns vegar færa um þetta frv., að það fari fram á hækkuð laun, umfram það, sem farið var fram á í till. þeirri, er samþ. var hér áðan, því að það er óneitanlegt, að farið er fram á hækkun launa yfirmanna varðskipanna. Í grg. hefir verið gerð svo rækileg grein fyrir aðstöðu þessara manna, að óþarfi er að fara frekar út í það. Ég vil aðeins undirstrika, til hvers það leiðir, ef gerður er greinarmunur á starfsmönnum varðskipanna og hliðstæðum starfsmönnum á öðrum skipum. Það stefnir óhjákvæmilega til þess, að yfirmenn á varðskipunum verða smátt og smátt annars flokks menn og lakari en hinir, því að það er hverjum manni eðlilegt að leita sem beztra kjara. Þetta er auðvitað óheppilegt, því að óvíða eða hvergi er meiri þörf duglegra manna og samvizkusamra en þarna. Hv. þm. geta af grg. sannfærzt um, að launin eru svo lág, að hæpið er, að viðunandi sé. Það er og viðurkennt, að mönnum, er vinna sömu verk á öðrum skipum ríkisins, er greitt hærra kaup. Þessir yfirmenn á varðskipunum heita reyndar að vera starfsmenn ríkisins og hafa þar af leiðandi einhver réttindi í sambandi við lífeyrissjóð. En svo er nú hverjum manni farið, að hann hugsar meira um líðandi stund en elliárin og sækir því þangað, sem bezt kjör bjóðast í svipinn. En hér er og á það að líta, að samskonar starfsmenn hjá Eimskipafél. hafa einnig slík eftirlaunaréttindi. Meiri hl. n. hefir því orðið sammála um að mæla með frv. Einn nm. hefir að vísu borið fram brtt., sem fer fram á, að þótt svo sé fyrir mælt í frv., að starfsmenn varðskipanna skuli njóta sömu launakjara og starfsmenn á öðrum ríkisskipum, þá skuli það ekki taka til þeirrar uppbótar, sem kölluð hefir verið strandferðauppbót. Um þessa till. hefir n. ekki tekið afstöðu. Þó er ekki að vita nema ástæða sé til að veita þessum mönnum einhverja uppbót vegna sérstakra erfiðleika, því að benda má á það, að starfið á varðskipunum er oft erfiðara og hættulegra en á strandferðaskipum. Hinsvegar hefir n. aðallega ætlazt til þess, að hinn fasti kauptaxti, sem gilt hefir á strandferðaskipunum, næði einnig til varðskipanna. Tel ég sjálfsagt að miða kjörin á varðskipunum við strandferðaskipin, en ekki skip Eimskipafél., því að hjá Eimskipafél. geta orðið breytingar, sem þingið ræður ekki við. En um öll ríkisskipin getur þing og stjórn ráðið öllu.