17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (1087)

25. mál, talstöðin í Papey

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég ætla að leyfa mér að gera till. um, að umr. verði frestað og málinu vísað til samgmn. Það er eðlilegt, þó ekki sé um stærra mál að ræða, að því verði vísað til n., þar sem talsvert liggur fyrir af upplýsingum viðvíkjandi því, sem hingað til hefir gert verið í málinu.

Stöðin er sett upp árið 1931. nú hefir landssímastjóri gert till. um að leggja hana niður, vegna þess að sama og engin viðskipti hafa verið við hana. Árið 1931 voru við stöðina 4 skeyti og 1932 aðeins 3.

Í þessu máli hefir alls ekki verið farið að með neinni hörku. Svo vægilega var farið að við ábúanda, að honum var leyft að hafa stöðina, ef hann vildi borga aðeins 50 kr. á ári og starfrækja stöðina auk þess ókeypis.

Landssíminn hefir lagt fram fé til þess að koma stöðinni upp, en hefir ekkert fengið í aðra hönd. Það er eðlilegt, að landssíminn vilji losna við að reka stöðina með kostnaði, og þess vegna er ábúanda gefinn kostur á því að leigja stöðina, og honum virðist ekki vera mikið í mun að halda stöðinni, ef hann vill ekki vinna það til fyrir 50 krónur. Ég vildi taka þetta fram til þess að sýna fram á, að hér hafi ekki verið beitt neinu harðræði.

Ég hefi ekki athugað það, hvort hægt sé að koma á einhverju samkomulagi. En ég þykist vita, að landssíminn vilji ekki taka á sig störf veðurstofunnar eða útgjöld vegna hennar. Hinsvegar vænti ég þess, að samþ. verði að fresta þessari umr. og málinu vísað til samgmn., og mun ég þá afhenda henni þau skjöl, sem ég hefi, og vænti þess, að hún leiti sér upplýsinga bæði hjá landssímastjóra og öðrum aðilum.