29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (1098)

25. mál, talstöðin í Papey

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Eins og hv. frsm. tók fram, þá hefir þetta mál aðallega strandað á því, að veðurstofustjórinn hefir ekki kært sig um eða ekki talið sig hafa fé til að fá veðurfregnir frá Papey, og þegar það kom í ljós, að stöðin þar var ekkert notuð, taldi landssíminn af sinni hálfu, að ekki væri ástæða til að halda henni uppi, nema ábúandinn vildi kosta starfræksluna. Þetta tilboð stendur ennþá, og ég geng út frá því, að svo framarlega sem ábúandinn fær einhverja þóknun fyrir að taka veðurskeyti og senda þau, þá muni þetta ganga vel. Svo finnst mér líka fullhátíðlegt að samþ. þáltill. um þetta mál, en samt geri ég það ekki að neinu kappsmáli.

Þetta mál verður athugað og afgr. af stj. alveg eins, hvort sem till. verður vísað til stj. eða hún samþ.

Ég vildi gjarnan spyrja n., hvort hún hafi ekki haft tal af veðurstofustjóranum og hvaða till. hann mun gera til landssímans. Vera má, að veðurstofan telji sig ekki hafa fé til að setja þarna upp fullkomna veðurathugunarstoð, enda er hún búin að búa allvel um sig með það á Vattarnesi.