29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (1100)

25. mál, talstöðin í Papey

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Hv. þm. V.-Sk. hefir nú gert grein fyrir afstöðu sinni. Fór þar sem mig varði, að þeir hv. nm., sem skrifuðu undir með fyrirvara, eru í rauninni samdóma því, að eitthvað sé gert fyrir þetta mál, en þeir vilja aðeins afgr. það á einfaldari hátt. Ég gæti líka frá mínu sjónarmiði gengið inn á það, einkum þar sem hæstv. ráðh. hefir nú lýst því yfir, að stj. hafi fullan vilja á þessu og muni taka alveg eins á því, hvort sem till. verður samþ. eða ekki. En úr því að stj. tekur vel í að framkvæma það, sem í till. stendur, þá er líka rétt, að hún sé samþ. Það er áhrifameira og meiri. styrkur fyrir stjórnina.

En út af því, sem hæstv. ráðh. spurðist fyrir um, hvort n. hefði haft tal af forstjóra veðurstofunnar og landssímastjóra, þá vil ég geta þess, að ég hefi fyrir n. hönd haft tal af þessum mönnum um málið. Heyrðist mér hljóðið í landssímastjóra þannig, að hann fyrir hönd landssímans vildi helzt vera laus við þessa stoð, en annaðhvort Papeyjarbóndinn eða þá veðurstofan, sem mest mundi nota þessa stöð, tæki hana á leigu. Svo talaði ég við forstjóra veðurstofunnar, og heyrðist mér á honum, að þetta mundi vel geta gengið, að taka stöðina á leigu fyrir hönd veðurstofunnar, en mér heyrðist á honum, að það væri þó aðeins með því móti, að samningar gætu tekizt við Papeyjarbóndann um að taka að sér starfrækslu stoðvarinnar og veðurathuganirnar, en eins og hv. þm. V.-Sk. tók fram, þá er líklegt, að þeir samningar geti tekizt.

Aðalkostnaðurinn við starfrækslu stöðvarinnar er hleðsla rafgeyma. Verður að koma þeim til hleðslu á næstu rafstöð, sem er á Berunesi. Þess vegna verður að hafa a. m. k. 2–3 rafgeyma til skipta, svo að hægt sé að senda þá með þeim ferðum, sem falla milli lands og eyjar, svo að ekki þurfi að senda með þá sérstaklega, nema þá í ýtrustu nauðsyn. Þetta er aðalkostnaðurinn, og er auðvitað rétt, að sá, sem rekur stöðina, fái eitthvað fyrir það, en það yrði aldrei stór fjárhæð, því það kostar aldrei nema 2–3 kr. að hlaða rafgeyminn, og ef ekki þarf að senda sérstaklega með geymana milli lands og eyjar, þá kostar auðvitað ekkert að koma heim til hleðslu.

Þá held ég, að ég hafi gefið hæstv. ráðh. þær upplýsingar, sem hann bað um. Og forstjóri veðurstofunnar taldi ekki ókleift að reka stoðina, þó að það kostaði 200–300 kr.; það yrðu einhver ráð með það. En um veðurathugunarstöðina sagði hún, að þyrfti að koma tækjum til Papeyjar, og búast mætti við, að þangað þyrfti að líkindum að senda mann, en það mundi ekki geta orðið fyrr en með vorinu, svo að það yrði fyrst þá, sem regluleg veðurathugunarstöð kæmist þarna upp. Það er því alveg rétt, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að samningar um þetta mál mundu ekki takast fyrir byrjun þessarar vertíðar.