04.12.1933
Neðri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (1103)

52. mál, varðskip landsins

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Aðeins örfá orð út af síðustu atriðum í ræðu hv. 1. þm. Reykv. Hv. þm. telur, að í þessu efni megi alls ekki miða við það vandræðaástand, sem nú ríkir í atvinnuvegunum, þegar sett eru ákvæði um launakjör á þessu sviði. Í þessu er ég hv. þm. mjög ósammála. Ég tel, að á hverjum tíma eigi að miða við það ástand, sem þá er. Það hefir sýnt sig á undanförnum árum, að engir örðugleikar hafa verið á því, þegar vel gengur, að hækka laun starfsmanna ríkisins. En hinsvegar eru alltaf örðugleikar á því að hækka launin frá því, sem lög ákveða, og það jafnvel hvernig sem atvinnuvegir ganga í landinu og hagur ríkissjóðs er.

Að endilega þurfi að taka ákvörðun um þessa launahækkun nú á þessu aukaþingi, það er hlutur, sem ég fæ ekki skilið. Hlutverk þessa aukaþings er að mínu áliti ekki það, að auka byrðar ríkissjóðs að nauðsynjalausu. En að því er snertir útgjöld úr ríkissjóði, þá er nauðsynin aðallega sú, eins og nú standa sakir, að styrkja með þeim framleiðsluna. Þessi þáltill. getur að mínu áliti beðið og ætti að bíða næsta þings.