29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (1123)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Magnús Jónsson:

Það er náttúrlega ekki ástæða til þess að andmæla því út af fyrir sig, þó að þingið vilji skora á ríkisstj. að láta athuga, hvernig bezt skuli haga sölu á landbúnaðarafurðum innanlands. Mönnum hefir orðið tíðrætt um ólag á sölunni t. d. hér í Rvík vegna of margra milliliða. Varan er í of háu verði, enda þótt framleiðendur fái mjög lítið fyrir hana, og þó að ég haldi, að nefnd, sem sett yrði til þess að rannsaka þetta, myndi ekki finna púðrið í þessu, þá er ég í sjálfu sér ekki á móti því, að þetta verði athugað. En ég hefi ekki trú á því, að það verði auðvelt að lagfæra það á annan hátt en hann, sem næst með hinni frjálsu samkeppni.

Ég vil minnast á það, að þessi till. er bersýnilega miðuð við það eitt að hækka vöruverðið. Þegar um sölu afurða er að ræða, þá koma tvennskonar hagsmunir til greina: hagsmunir framleiðendanna, að fá sem hæst verð fyrir vöruna, og hagsmunir neytendanna, að þeir fái vöruna við sem lægstu verði. Ef löggjafarvaldið fer að skipta sér af þessum málum, þá verður það að vega salt þarna á milli, svo að tekið sé tillit til beggja aðila. Með þessari till. er aðeins tekið tillit til annars aðila, með því að setja lágmark verðs, en ekkert hamark. Það á með þessari till. að koma því til vegar, að Reykvíkingar og aðrir kaupstaðabúar fái nú að borga nógu hátt verð. Það getur verið álitamal, hvort ekki eigi að gera þetta, hvort ekki sé nauðsynlegt að setja þessa skrúfu á kaupstaðabúana, hvort þetta sé ekki helzta ráðið til þess að lyfta framleiðslunni upp úr því feni, sem hún er sokkin niður í, en hitt dylst engum, að þetta er tilgangurinn með till. Ég tala hér í umboði minna kjósenda, sem eru neytendurnir í Reykjavík, og fyrir þeirra hönd get ég alls ekki fallizt á þessar ráðstafanir.

Hv. flm. taldi það hneyksli og áleit það bera vott um óeðlilega samkeppni, að einn heildsali hér í bænum hefði verið að hrósa sér af því að geta selt landbúnaðarafurðir við lægra verði heldur en almennt gerist. Þetta er ekki óeðlileg samkeppni, heldur einmitt eðli hennar. Þetta er einmitt ávöxtur hinnar frjálsu samkeppni. Hver hleypur í kapp við annan um að kaupa vöruna sem ódýrast, til þess að geta selt neytendunum hana við sem lægstu verði. Hin eðlilega samkeppni verkar alltaf verðlækkandi, og þess vegna er þetta í sjálfu sér ekkert hneykslanlegt frá almennu verzlunarsjónarmiði. En það, sem hv. flm. vill með þessari till., er að afnema þessa eðlilegu samkeppni.

Hv. flm. minntist á reglu um eðlilegt verðlag og taldi, að það væri framleiðslukostnaður að viðbættum kostnaði við dreifingu og væntanlegum ágóða. Ég held nú, að þetta sé skökk regla, og skal sýna það með dæmi: Ef ég setti mig niður og færi að búa til eldspýtur, en gerði það með svo óheppilegri aðferð, að framleiðslukostnaður að viðbættum dreifingarkostnaði og ágóða yrði ein króna á eldspýtustokkinn, þá gæti ég samt sem áður ekki selt hann fyrir það verð. Í reyndinni sýnir það sig, að hið eðlilega verð hverrar vöru er það, sem fæst fyrir hana á frjálsum markaði. En þessi regla getur verið rétt hér, ef gera á ráðstafanir til þess að útiloka eðlilega samkeppni, og það er það, sem till. fer fram á. Ég sagði áðan, að till. væri algerlega stefnt á móti neytendunum, og þetta er líka beinlínis sagt í till. og sest líka mjög greinilega af því, hvernig á að skipa ráðunautana eftir till. n. og hv. 3. landsk., har sem fulltrúar framleiðendanna einir eiga að ræða um verðlagið. (JónasJ: Ekki eftir minni till.; ég breytti henni). Já, par er Alþýðusambandið tekið með, og þá verður n. þannig skipuð, að það verða 1:4. En eftir upphaflegu till. átti að skipa hana alveg einhliða. M. ö. o., stj. á að vera verkfæri í hendi annars aðila. Það á að leita ráða til þess að neyða kaupstaðabúana til að kaupa vöruna óeðlilega háu verði. Og þegar þessi till. er skoðuð í sambandi við önnur lög, sem miða að því að útiloka líka erlenda keppinauta, þá fer till. að verða nokkuð varhugaverð.

Ég ætla að reyna að afla mér skýrslna, er sýna, hversu margar krónur eru beinlínis teknar úr Reykjavík með því að útiloka erlenda framleiðendur frá markaði hér. Ég veit ekki, hversu há þessi upphæð er, en get búizt við, að það skipti millj. króna, sem á þennan hátt er tekið af Reykvíkingum. Því hefir verið haldið fram af þeim, sem hafa verið þessari útilokun útlendinga hlynntir, að engin hætta væri á gífurlegri verðhækkun, af því að innlendu keppinautarnir væru svo margir. En nú virðist eiga að taka upp þá reglu, að útiloka fyrst erlenda framleiðendur í skjóli þess, að þeir innlendu séu svo margir, og síðan á að útiloka alla samkeppni innanlands. Það á að setja á laggirnar klóka nefnd, sem komi í veg fyrir alla samkeppni, og þegar því er komið í kring, þá er búið að binda kaupstaðabúana á höndum og fótum og má taka heim blóð eftir vild.

Nú má ekki skilja orð mín svo, að ég telji með öllu óeðlilegt, að kaupstaðabúarnir séu háðir einhverjum fyrirmælum um hækkað verð til þess að styðja framleiðendurna á þessum erfiðu tímum, en ég verð samt að segja, að fulltrúar framleiðendanna verða að gæta hófs í slíku. Ef kauptúnunum finnst þeim vera hrapalega misboðið af löggjafarvaldinu, þá hafa þau nóg ráð til þess að gera öll slík ákvæði að engu, því að það er ómögulegt, hversu fegnir sem menn vildu, að setja lög um það, að svo og svo mörg pund skal hver Reykvíkingur borða af kjöti, smjöri eða öðrum landbúnaðarafurðum, enda væri erfitt að framfylgja slíkum lögum, þó þau væru sett. Kaupstaðabúar geta sagt: Við kaupum ekki ykkar dýru vöru —, og væri illt til þess að vita, ef með forsi væri farið að kaupstaðabúunum og vakin með því mótstaða og óvildarhugur milli kaupstaða og sveita.

Hv. frsm. sagði margt, sem ég hefði haft gaman af að athuga. T. d. komst hann svo að orði, að ekki væri stefnt til neinnar einokunar, þó að einstaklingarnir mættu ekki hafa þessa sölu á hendi. ég sé nú ekki, af hverju hv. flm. dregur þessa ályktun. Það er ekki minnzt á þetta í till., og ekki sé ég, hvernig það er tryggt með vali fulltrúanna. Mér virðist einmitt, að stefnt sé með þessari till. að einokun, þar sem annar aðili fær öllu að ráða og hinn er seldur honum varnarlaus í hendur.

Þá spyr hv. flm., hvernig eigi að fara með þá, sem búa fjarri höfuðstaðnum og geta ekki snuðað Reykjavík beinlínis. Og hann kemst að þeirri niðurstöðu, að leggja verði á verðjöfnunarskatt. Mér skildist helzt, að þessi verðjöfnunarskattur ætti fyrst að renna til ríkisins, sem greiddi síðan til framleiðendanna.

Sú er reynslan, að þeir, sem borga eiga þetta háa vöruverð, borga einnig skattana til ríkissjóðs. Og nú á að fara að hækka álögurnar enn á ný. Það er því bersýnilegt, að hér er stefnt að ófriði milli neytendanna annarsvegar og framleiðendanna hinsvegar, og sá ófriður er báðum til stórskaða og hnekkis.

Þá minntist hv. flm. á lækkun krónunnar sem bjargráð fyrir bændur, og var honum andmælt af hv. 2. landsk. Ég get tekið undir það með hv. 2. landsk., að krónulækkunin er tvíeggjað sverð. Krónulækkunin breytir að mínu áliti í raun og veru engu, a. m. k. ekki til lengdar. Hvort þetta er kölluð króna eða hitt, breytir engu við jöfnun á tekjum og gjöldum. Sú eina von, sem menn setja á lækkun krónunnar, er, að á meðan verið er að lækka hana græða framleiðendurnir í svipinn, meðan vinnulaun og vöruverð er ekki búið að laga sig eftir krónulækkuninni. En sem framtíðarlækning er krónulækkunin hrein fjarstæða.

Það er rétt, sem hv. 2. landsk. sagði, að þetta mundi leiða af sér harðvítugar deilur, og er að vísu ekkert við því að segja í sjálfu sér, ef það aðeins leiddi til þess, sem því er ætlað að leiða, en svo er alls ekki. En um leið og ég játa þetta, vil ég jafnframt segja það, að því er snertir okkar peningaástand, hvað okkur gengur illa að halda jöfnuði í verzluninni við útlönd, að þetta ber vott um, að gjaldeyririnn sé of hár, eins og hv. flm. sagði; aðeins kýs ég heldur að orða þetta öðruvísi, að framleiðslukostnaðurinn er of mikill í sambandi við verð vörunnar. Framleiðslan dreifir út fleiri krónum en inn koma á móti fyrir vöruna, og kann slíkt auðvitað ekki góðri lukku að stýra. En ég vil benda á það, að það eru harla einkennilegar ráðstafanir, sem menn vjlja gera til þess að bæta úr þessu. Menn eru þannig alltaf að koma fram með kröfurnar um vaxtalækkun, og er það þó mála sannast, að vaxtalækkun mundi stuðla að því að auka þetta böl. Á þessum tímum, þegar við eigum erfitt með að standa í skilum með erlendar greiðslur, eru ströng innflutningshöft og vaxtalækkun hreinasta fjármálaóvit. Ég skal ekki fara að halda hér neinn fyrirlestur um þetta. Það liggur í augum uppi, að vaxtalækkun mundi örva viðskiptalífið, fleiri seðlar fara í umferð, kaupgeta almennings aukast, hvort sem hún yrði nú fölsk eða ekki, og fleiri peningar rúlla manna á milli, og allt mundi þetta leiða til þess, að kröfurnar á erlendan gjaldeyri mundu aukast. Það er viðurkennd regla, þegar viðskiptajöfnuðurinn er erfiður, að gripið er til vaxtahækkunarinnar, sem skrúfar fastar að viðskiptalífinu, svo að nauðsynlegur kyrkingur kemur í allt fjármálalífið, dregur úr viðskiptum öllum, svo að kröfurnar á erlendan gjaldeyri minnka og ógegndin, sem gripið hefir um sig á öllu fjármálasviðinu. Ég verð því að segja það, að það er lítil von til þess, að viðskiptaástandið lagist á meðan hver raðstöfunin, sem gerð er, rekur sig á aðra, annarsvegar innflutningshöft og hinsvegar vaxtalækkun.: því er krónulækkunina snertir, þá hefi ég áður bent á það, að framleiðslukostnaðurinn er of mikill og verður að fara niður, ef við eigum að geta haldið gjaldeyrinum. Innflutningshöftin veita hér enga lækningu, heldur aðeins að komist á samræmi milli tilkostnaðarins við framleiðsluna og afrakstrarins af henni.

Að því er brtt. snertir, sem fram hafa komið, þá vil ég segja það hvað snertir brtt. hv. 4. landsk., að hún miðar í þveröfuga átt, og er ég því meira á móti henni en upphaflegu till. eins og hún er. Brtt. hv. 2. landsk. miðar að því leyti í rétta att, að þar er stefnt að því að koma inn einum aðila fyrir neytendurna, en till. gengur hinsvegar allt of skammt í þessa att og er því ófullnægjandi. Ég hefði talið réttast, að bæjarstj. útnefndu einn manninn í n., enda er þetta ekki málefni verkamanna sérstaklega, heldur varðar það alla íbúa kaupstaða og bæja jafnt, og því aðeins að n. sé skipuð aðilum frá báðum hliðum, verður hægt að vænta þess, að stj. fái heilbrigðar till. til að fara eftir.

Ég vil alvarlega vara við því að spenna bogann of hátt, enda má segja, að hann sé of hátt spenntur nú þegar, því að ef boginn er of hátt spenntur, getur það leitt til þess, að virk mótstaða verði hafin á móti, sem ekki yrði á valdi Alþingis að koma í veg fyrir.