29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (1124)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Jónas Jónsson:

Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir það, að hann frestaði umr. í gær, því að hér lágu þá svo margar skrifl. brtt. fyrir við till., að erfitt var að átta sig á þeim. Nú hafa brtt. verið prentaðar, og vil ég geta þess, að ég hefi breytt minni till., sem ég flutti hér í gær, lítillega, þannig að n. verði skipuð 5 aðilum, sem valdir séu af Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, Sláturfélagi Suðurlands, Mjólkursamlagi Suðurlands, Búnaðarfélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands. Ég er samdóma hv. 3. þm. Reykv. um það, að málið verður ekki leyst með einhliða átaki, og því hefi ég bætt Alþýðusambandinu inn í, en að vísu verður engin framtíðarlausn bundin á þetta mál, þótt þessi formbreyting verði knúin fram, að báðir aðilar verði hér að verki.

Ég er samdóma hv. 3. landsk. í öllum meginatriðum og sammála honum um flestar þær röksemdir, sem hann færði fram fyrir málinu. Ég get þó ekki verið sammála hv. þm. um það, að orsökin til þess, hve herfileg mistök hafa verið á sölu landbúnaðarafurðanna, liggi í því, að verðið ætíð hafi verið of lagt. Ég held þvert á móti, að orsökin sé sú, að verðið sé stundum og á vissum stöðum of hátt, eins og bezt kemur fram í mjólkurverðinu hér í Rvík. Verðið á mjólk hér er okurhátt, en þó fá framleiðendur mjólkurinnar ekki nema mjög lágt verð fyrir framleiðslu sína. Er þetta vont bæði fyrir neytendurna hér í bænum og framleiðendurna í sveitinni og ágætt dæmi þess, hve hér er um mikið verkefni að ræða, sem ráða þarf fram úr. hér í Rvík er mjólkin seld á 42 aur. lítrinn. en framleiðendurnir austanfjalls fá þó ekki nema 14–16 aura fyrir hana, auk þess sem í raun og veru hundruð baenda vildu selja hér mjólk, en fá því ekki til leiðar komið, af því að heimilin geta ekki keypt mjólkina við því verði, sem á henni er. Fyrir síðasta þingi lá frv. um þessi efni, sem hafði gengið í gegnum 5 umr. í þinginu, en flokkur hv. 3. þm. Reykv. snerist þá á móti og ónýtti frv. Þar var séð vel fyrir þessu atriði, að neytendurnir yrðu ekki beittir einhliða kúgun um mjólkurverðið, heldur væri verðið ákveðið af dómn., sem bæði neytendur og framleiðendur ættu sinn fulltrúa í, en maður, útnefndur af ríkisstj., færi þar með úrskurðaratkv. Það er víst, að þetta mál í heild sinni, sem hér er um að ræða, græddi töluvert á meðferð mjólkurmálsins á síðasta þingi, með því að sú tilraun er að sumu leyti það bezta, sem lagt hefir verið til þessara mála.

Þótt ég sé samdóma hv. flm., að nauðsynlegt sé að athuga þessi mál öll, er ég hinsvegar ekki samdóma honum um aðferðina við þá rannsókn. Mér þykir hann vilja beita of miklum lausatökum við rannsókn málsins. Hv. þm. gerir ráð fyrir, að stj. láti athuga málið og leggi þá athugun síðan fyrir þingið í ómeltu skýrsluformi, sem enginn ber ábyrgð á, í stað þess að láta hana koma fram í frv.formi. Nú er ennfremur á það að líta, að aðstaða núv. stj. er mjög veik, ráðh. vita ekki einu sinni, hvort þeir verða deginum lengur, og er satt að segja ekki við því að búast, að fungerandi stj., sem aðeins er til að halda stjórnarskipinu fljótandi, ef svo mætti segja, geri djúptækar till. í málinu, ekki sízt þar sem henni er ekki upp á lagt annað eða meira en aðeins að safna skýrslum um málið. En í þessu máli þarf fyrst og fremst ákveðnar till., svo að hægt sé að taka málið fyrir á næsta þingi. Þarf að gefa þeim aðilum, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í þessum efnum, tækifæri til að vera með við athugun málsins og reyna að koma á samvinnu með þeim á þeim grundvelli, sem gengur fyrst og fremst út á að fækka milliliðunum. Að bóndinn fær aðeins 14 aura fyrir mjólkina, enda þótt neytendurnir verði að borga 42 aura fyrir hana, þessi mikli mismunur liggur fyrst og fremst í skipulagsleysinu, sem er á mjólkursölunni, og því, hve margt fólk starfar að dreifingu þessarar vöru, sem verður til þess að pína bæði neytendur og framleiðendur.

Ég mun ekki greiða atkv. á móti þessari till., ef brtt. mín verður felld, en hinsvegar sitja hjá við atkvgr., af því að ég álít, að till. sé þýðingarlaus, ef brtt. mín nær ekki fram að ganga.

Þá vildi ég víkja nokkrum orðum að því atriði þessarar till., sem að vísu hefir verið mótmælt af hv. 3. þm. Reykv., og er það, að till. gerir ráð fyrir að tryggja bændum landsins fullt framleiðsluverð fyrir vörur sínar. Ég skil ekki, hvernig hv. flm. hugsar sér, að hægt sé að tryggja slíkt, og væri æskilegt, að hv. flm. vildi útskýra það í næstu ræðu sinni, hvernig hann hugsar sér þetta. Ég er sammála hv. þm. um það, að gott sé að ganga út frá þessu, en hv. þm. á algerlega eftir að sýna fram á, hvernig unnt sé að ná þessu takmarki. Ég veit ekki til þess, að slíkt hafi tekizt í nokkru landi, jafnvel rússnesku bolsevíkunum hefir ekki tekizt að komast lengra í þessum efnum en Sambandi ísl. samvinnufélaga hefir tekizt hér hjá okkur, að láta bændur fá fyrir vöruna það, sem hún selst fyrir. Það er að vísu falleg hugsun að tala um að vilja tryggja bændum framleiðsluverð fyrir vöru sína, en það verður fyrst og fremst að teljast draumsjón, þegar menn ætla sér að tryggja slíkt með lagasetningu. Það væri a. m. k. fróðlegt að heyra eitthvert dæmi um það úr sögu viðskiptanna, hvernig slíkt hefði mátt takast. Ég hefði og haft gaman af að heyra, hvernig hv. flm. hugsar sér að reikna út hið sanna framleiðsluverð kjötsins t. d. Hæstv. atvmrh. mun hafa reiknað það út, að tímakaup bænda muni svara til 17 aur. á klst., og er það náttúrlega langt fyrir neðan allt taxtakaup, enda mun hv. flm. varla ætlast til þess, að miðað sé við þetta kaup við útreikning framleiðsluverðsins. En við hvað á að miða? Það er a. m. k. vitanlegt, að meginið af því, sem framleitt er í heiminum, er gert fyrir kaup, sem er langt fyrir neðan allt taxtakaup. En ég skal ekki vera að eyða fleiri orðum að þessu eða setja út á þessa hugsun hv. flm. með kostnaðarverðið, og það get ég fullvissað hv. flm. um, að því mundi fagnað mikillega um gervallan heim; ef takast mætti að tryggja framleiðendunum kostnaðarverð fyrir vöru sína með einhverju móti. Ég vil þó raunar ekki neita því með fullu, að þetta kunni ef til vill að hafa tekizt einhversstaðar, og sé aðeins fáfræði minni um að kenna, að ég skuli ekki þekkja neitt dæmi þessa, og ef til vill er líka ímyndunarafl mitt of lítið til þess að ég geti hugsað mér, hvernig hv. flm. ætlar að koma þessu í kring. Ég mun því bíða næstu ræðu hv. flm. með mikilli óþreyju hvað þetta snertir.