29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (1127)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Jón Þorláksson:

Ég vil spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að bera till. á þskj. 156 upp í þrennu lagi. Till. þessi er í þremur málsl., og ég fyrir mitt leyti er samþykkur 1. og 3. málsl., en í 2. málsl. segir: „Skal leita um þetta umsagnar Búnaðarfélags Íslands, Sambands ísl. samvinnufélaga, Sláturfélags Suðurlands og Mjólkurbandalags Suðurlands“. Ég er í sjálfu sér ekki að finna að því, þó að leita eigi umsagnar þessara stofnana. heldur finnst mér ekki rétt að binda hendur stj. eingöngu við þessa aðila, en ganga framhjá öðrum. Ég tel, að stj. muni sjálf rata á þá staði, sem upplýsingar er að fá um þessi efni, og sé því óþarft að vera að gefa henni sérstaka vísbendingu um það, hvar hún eigi að afla sér þeirra.

Að endingu vil ég endurtaka þau tilmæli mín til hæstv. forseta, að hann beri till. á þskj. 156 upp í þrennu lagi, hvern málsl. út af fyrir sig.