29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (1133)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Jón Baldvinsson:

Samkv. því, sem ég sagði í gær, þá hefi ég flutt hér tvær brtt., aðra á þskj. 209, en hina á þskj. 210. Þær eru raunar báðar um sama efni, en fluttar í tvennu lagi. Ég þarf ekki að skýra nánar það, sem fyrir mér vakir. Það er sem sé það, að neytendur hafi hér einhverja hönd í bagga, og ég gat ekki fundið neinn aðila, sem betur var tilvalinn í þessu efni en Alþýðusamband Íslands. Ég sé nú, að hv. 4. landsk. hefir tekið þetta upp í brtt. sína. Gæti ég því gjarnan tekið brtt. mína um sama efni á þskj. 210 aftur.

Hv. 3. landsk. var enn að reyna að hera í bætifláka fyrir það, að fella krónuna í verði, og byggði hann skoðun sína á því, að bændur flyttu út meira verðmæti en þeir keyptu aftur af erlendum vörum. Þetta virðist í fljótu bragði vera rétt hjá honum, en hann athugar ekki, að það myndi koma að litlu gagni, öðru en því, að lækka vinnuna í bili, því eins og ég og hv. 3. hm. Reykv. bentum honum á, þá myndi það ekki heldur vera nema aðeins í bili, því að ekki myndi líða á löngu þangað til kröfum Alþýðuflokksins um kauphækkun yrði fullnægt. Rétt er líka að benda á, að einn af forstjórum S. Í. S., Jón Árnason, hefir í grein í „Tímanum“ talið bændum engan hag að lækkun ísl. krónunnar, vegna þess hve lítill munur væri á því, sem bændur seldu, og því, sem þeir þyrftu að kaupa. Hv. 3. landsk. telur hann vitanlega ekki óskeikulan, sem rétt mun vera. En ekki mun þó annar kunnugri þessum málum en sá framkvæmdarstjóri S. Í. S., sem kaupir og selur mestan hlutann af framleiðslu landsmanna. Spurningin er því aðeins sú, hvort hann muni hafa skýrt hér rétt frá, sem ég þó ekki efa.