29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (1134)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég hefi vikið að því fyrir skömmu, að ekki sé mikil vissa eða líkindi fyrir því, að ég mundi sem ráðh. mikið riðinn við framkvæmd þessarar þáltill. eða annara sem afgr. verða á þessu þingi. Þó vil ég fara nokkrum orðum um þessa till. Ég hygg, að engum blandist hugur um þá nauðsyn, að þetta sé athugað, eða geti fundizt óeðlilegt, þó talað sé um, að rannsókn fari fram um það, hver áhrif sé tiltækilegt að reymt að hafa á verðlag landbúnaðarafurða. Þegar allar horfur eru á, að annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar ætli að stöðvast fyrir það, að framleiðsluvörur hans seljast ekki með kostnaðarverði. Mál þetta er nauðsynjamál, og það af tveim ástæðum. Önnur er sú, að þær landbúnaðarvörur, sem hér eru framleiddar og seldar innanlands, eru nauðsynlegar fyrir þjóðarbúskapinn. Það mundi allmikið hallast greiðslujöfnuður vor við aðrar þjóðir, ef við ættum að kaupa af öðrum þjóðum allar þær landbúnaðarafurðir, sem notaðar eru í landinu af öðrum en framleiðendunum sjálfum. Í öðru lagi er á hitt að líta, að sjávarútvegurinn er ekki svo glæsilegur sem stendur a. m. k., að vænlegt ráð sé að ætla honum að taka við sveitafólkinu á mölina, ef atvinnugrein þess á við svo þröngan kost að búa, að búskapur þess getur ekki borið sig. Það hefir verið drepið á það hér í umr., að aðrar þjóðir hafa gert víðtækar ráðstafanir í þessa sömu átt. Slíkar ráðstafanir eru okkur kunnar frá okkar skyldustu nágrannaþjóðum.

Afkoma landbúnaðarins er mikið undir innlenda markaðinum komin. Þó ekki séu til neinar skýrslur um það, hve mikill hluti af framleiðsluvörum landhúnaðarins er seldur innanlands, þá hygg ég, að fullyrða megi, að það muni a. m. k. vera frá helmingi og upp í þrjá fimmtu hluta framleiðslunnar. Það er þess vegna ekki ófyrirsynju, að slík till. sem þessi kemur fram. Og auðvitað er fyrsta rétta sporið í málinu að rannsaka það gaumgæfilega, hver leið sé, tiltækilegust til þess að rétta við hag landbúnaðarins í þessu efni, an þess þó að ofþyngja neytendum um skör fram.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um, að ráðstafanir þær, sem till. bendir til, mundu verða til stórskaða fyrir bæjarbúa, og fullyrti, að verðið á landbúnaðarafurðum yrði þá spennt of hátt. Hann gætti ekki að því, að það eru líka takmörk fyrir því, hve hátt hægt er að spenna verðið án þess að neytendurnir dragi að sér hendina um kaupin. Slíkt væri skaði, jafnt fyrir báða aðila, framleiðendur og neytendur, og ég treysti vel þeim, sem stjórninni hefir verið bent á að leita tillagna hjá, til þess að líta einnig á þessa hlið. Hv. þm. sagði líka, að till. miðaði ekki í þá átt, að bændur fengju stærri hluta af brúttóverði vörunnar. Þetta er algerlega rangt. Till. miðar að því að gera dreifingarkostnað vörunnar minni, og á þann hátt að hækka hlut framleiðenda. Þetta er tilgangur till., en ekki sá, að láta hækkunina verða alla á kostnað neytenda. Það er svo fjarri því, að framleiðendur geti sett neytendum alla kosti, þó sett yrðu lög í þá átt, sem till. fer fram á. Ef framleiðendur setja verðið of hátt, Þá minnkar notkun vörunnar og markaðurinn þrengist. Það eitt á að vera nægilegt aðhald gegn því, að verðið verði „spennt of hátt“, eins og hv. þm. komst að orði.

Þá talaði hv. þm. um það, að framleiðslukostnaður yrði að lækka. Það væri náttúrlega mjög æskilegt. En ég veit ekki, á hvern hátt það mætti verða annan en þann, ef hægt væri að bæta jarðirnar meira en orðið er og vinna að framleiðslunni með vélum meira en gert er. Á þessu hafa þing og stjórn stefnt undanfarið, bæði með því að veita jarðræktarstyrk, styrk til vélakaupa, með samgöngubótum, og á ýmsan annan hátt. Það er haldið í horfið í þessum efnum, en menn verða að gæta að því, að hér geta ekki orðið stór stökk í einni svipan. þessum framkvæmdum hefir mikið miðað áfram á síðasta áratug og framleiðslukostnaðurinn hefir lækkað vegna aukinnar jarðræktar og vélanotkunar og bættra samgangna á sjó og landi. En ég sé ekki í fljótu bragði, hvernig á að lækka framleiðslukostnaðinn verulega á annan veg.

Það má náttúrlega koma hér fram með heimspekilegar hugleiðingar um það, hvað sé eðlilegt verðlag á hverjum tíma. Um það sýnist nú sitt hverjum, og hafa verið skrifaðar um það heilar bækur. Ég ætla ekki inn á það mál, en ég hygg, að þeir aðilar, sem nefndir eru í till., muni í væntanlegum till. sínum gæta þess, að boginn verði ekki spenntur of hátt, svo að hætta sé á, að markaðurinn þrengist.

Þá talaði hv. þm. Reykv. um, að Reykvíkingar töpuðu árlega mörgum millj. kr. því að kaupa innlendar landbúnaðarvörur hjá því ef hægt væri að fá þær frá öðrum löndum með því verði, sem þær mundu fást þaðan. Ég held nú, að það nettóverð, sem bændur fá fyrir þær vörur sínar, er þeir selja hér, sé ekki svo margar millj. kr., að mismunurinn á innlendu og erlendu verði geti einn numið mörgum millj. kr. Ennfremur vil ég benda hv. þm. á það, að mestan gróðann af verzluninni með þessar vörur fá einmitt Reykvíkingar sjálfir. Hv. þm. tók það fram, að ekki ætti við að ganga fram til slíkra ráðstafana sem þessara með neinu forsi. Ég hygg nú, að ekki sé hægt með réttu að segja það, að till. sé borin fram með offorsi. Það er talað um að afla þeirra upplýsinga, sem unnt er að fá án mikils kostnaðar. Síðan er gert ráð fyrir, að rannsókn fari fram á málinu, og þó að í till. standi, að árangurinn af þeirri rannsókn eigi að leggjast fyrir næsta þing væntanlega í frv.formi, þá get ég ekki seð annað en að hér sé farið rólega og gætilega af stað, en hreint ekki með neinu offorsi.

Þá talaði hv. 4. landsk. um það, að till. á þskj. 156 væri aðeins málamyndatilraun. Það ætti aðeins að safna skýrslum frá einstökum stofnunum og síðan ætti að leggja þær fyrir þing. Ég skil till. ekki svo. Þriðji liður till. stefnir í ákveðna átt. Ég tel það því algerlega ofmælt, að till. beri það eitt með sér, að það eigi ekki að leysa málið. Ég hygg einmitt, að í höndum velviljaðrar stj. beri þessi till., ef samþ. verður, góðan árangur. Það hefir verið talað um, að enginn vissi, hvert væri raunverulegt kostnaðarverð á framleiðsluvörum bænda, og einn hv. þm. hélt því fram, að það mundi aldrei hafa verið rannsakað. Það er að vísu rétt, að ekki liggja fyrir nein skýlaus gögn í þessu efni. En þrátt fyrir það verður það ekki talin nein goðgá, þótt nefndur sé framleiðslukostnaður í þessu sambandi, því að hvers vegna er um þetta mál rætt bæði hér í þingi og víðsvegar um land ? Er það ekki einmitt af því, að hverjum bónda er það ljóst, að verð landbúnaðarvaranna samsvarar ekki framleiðslukostnaðinum? Og fyrr getur það ekki borið sig að reka búskap en tilkostnaður og verðlag afurðanna gerir nokkuð betur en að standast á. Það virðist því ekki sem verið sé að spenna bogann mjög hátt, þótt reynt sé að vinna að því, að bændur fái a. m. k. framleiðslukostnaðinn endurgreiddan. Að vísu liggja ekki fyrir skýlaus gögn um það, hver sé framleiðslukostnaður hverrar einstakrar landbúnaðarvörutegundar í meðalárferði. En þetta er þó atriði, sem hver bóndi verður að gera sér grein fyrir, m. a. þegar hann ræður það við sig, hvort hann á að taka kaupafólk til heyskapar eða ekki. — Þetta hafa því margir góðir búhöldar reiknað út fyrr og síðar. Í einum af fyrstu árgöngum Búnaðarritsins birtist t. d. ritgerð um verð á heyi eftir séra Eirík Briem. Af þeirri ritgerð er ljóst, að þá hefir það borgað sig að taka kaupafólk til heyjaöflunar. Bóndinn hefir, þótt lagt væri verðlagið, fengið framleiðslukostnaðinn vel endurgoldinn. Nú horfir þetta öðruvísi við. Nú kemst þorri hagsýnna og reikningsglöggra bænda að þeirri niðurstöðu, að það borgi sig ekki að taka kaupafólk, nema á fullræktað land eða úrvals engjar, og það þó því aðeins, að þeir hafi hæga aðstöðu til markaðar, eða komist af með lítinn tilkostnað yfir veturinn og þurfi ekki að reikna sér fulla vexti af bústofni sínum. En enn er það aðeins lítill hluti bænda, sem hefir þá aðstöðu. Og meðan afurðaverðið er lægra en svo, að landbúnaðurinn geti greitt þeim, sem honum vinna, sæmilegt kaup fyrir strit sitt, þá getur enginn maður sagt, að verið sé að spenna bogann of hátt, þótt stefnt sé að því, að bóndinn fái framleiðslukostnaðinn endurgoldinn. — Þeir, sem telja sig vera sérstaklega fulltrúa neytendanna, geta ekki brugðið fulltrúum bænda um ósanngirni, þó að þeir orði slíkt. Miklu fremur er hér um sanngirnismál að ræða af hendi þeirrar stéttar, sem nú ber minnst úr býtum fyrir vinnu sína af öllum stéttum landsins. Ég tel því till. stefna í rétta átt og mæli eindregið með því, að hún verði samþ.