29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (1138)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Magnús Jónsson:

Ég þarf ekki að fara að bera af mér neinar sakir, þó að hv. 2. landsk. segi, að ég muni vera betur að mér í biblíunni en þjóðhagsfræði. Ég get samt sem áður haft þjóðhagsfræðina sem aukastarf, á sama hátt og hann hefir haft stjórnmálin sem aukastarf. En það er auðvitað ekki tryggt, að hann hafi nokkurt vit á stjórnmálum, enda þótt hann geti stjórnað brauðgerðarhúsi.

Hv. þm. sagði, að ég hefði í ræðu minni ekki tekið tillit til dreifingarkostnaðarins. En þó að jafnaðarmenn skilgreini kostnaðinn sem framleiðslukostnað + verður kenning þeirra jafnvitlaus fyrir því. Verð vöru er ekkert annað en það, sem hún selst fyrir, og hafa líka allir ræðumenn hér komizt að þeirri niðurstöðu. Það er yfirleitt ekki til neins að framleiða vöru, sem ekki selst. Ef varan selst ekki, stendur framleiðslukostnaðurinn sem dauður bókstafur.

Þá verð ég að segja það, að ég skil ekki afstöðu hv. 4. landsk., sem ber fram brtt., er gengur lengra en till. sú, sem fram er komin, en er þó á móti málinu, að því, er virðist. Við erum í rauninni sammála um margt, því að hann er alltaf að tala á móti sama máli og ég.

Ég skal ekki fara út í stórpólitískar hugleiðingar hv. þm. um sameiningu bændaflokksins og verkamannaflokksins. En ég ætla aðeins að minnast á eitt atriði í ræðu hans. Hann vitnaði í fisksölusamlagið. En hér er nú sá reginmunur á, að fisksölusamlagið er miðað við vörur, sem við seljum til annara landa. Er því hátt fiskverð í þágu allra landsmanna. En það, sem hv. þm. ræddi um, snerti innanlandssölu landsmanna. Skipulag hans myndi aðeins leiða til verðhækkunar. Hún er góð og blessuð, þegar ræðir um sölu til útlanda, en um sölu innanlands verður að stilla henni mjög í hóf.

Hv. 4. landsk. varð að játa, að það væru neytendurnir, sem að lokum segðu til um það, hvaða verð fengist fyrir vöruna. Þótt ekki væri um raunverulegt samkomulag að ræða, þá yrði að laga verðið eftir því, að varan gengi út. Hvað á þá að þýða að vera að reikna út eitthvert framleiðsluverð, ef hitt gildir að lokum? ég vil ekki lengja umr., þó að ég hefði viljað segja ýmislegt fleira, t. d. um það, að framleiðslukostnaðurinn yrði að lækka. Það stafar af því, hve har hann er, hvað við eigum jafnan erfitt með að fá verzlunarjöfnuðinn við útlönd okkur í vil.