22.11.1933
Neðri deild: 16. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (1159)

40. mál, útrýming fjárkláðans

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Á seinasta Alþ. var borin fram þáltill. um böðun til útrýmingar fjárkláða, en tími vannst ekki til að afgr. málið, svo að það dagaði uppi, varð ekki útrætt. Við flm. þessarar þáltill. vildum ekki láta mál þetta algerlega niður falla, vegna þess hve það hefir afarmikið að segja fyrir sauðfjárrækt vora, að útrýming fjárkláðans takist. Það eru sum héruð, sem telja þetta eitthvert mest áríðandi málið hvað búfjárræktina snertir nú eins og sakir standa, að fyrirkomið verði að fullu slíkum vágesti sem fjárkláðinn hefir verið. Það er óhætt að fullyrða, að enginn faraldur í búfé voru hefir gert landsbúum slíkt tjón sem fjárkláðinn, jafnvel ekki bráðapestin. Að því er talið er barst kláðinn fyrst til landsins um 1760 og þá eyddi hann að heita mátti sauðfé landsmanna allt frá Jökulsá á Sólheimasandi til Jökulsár á Fjöllum, að undanskildum Vestfjörðum. En með niðurskurði og öðrum vörnum var hægt að útrýma honum í það skipti. En nær 100 árum síðar — milli 1850–60 — gaus þessi faraldur upp aftur og byrjaði þá hér í Mosfellssveit og austur í Flóa. Og þá sögu þarf ekki að rekja nákvæmlega. Þá var barizt gegn honum af nærfellt öllum landsmönnum, þótt ekki yrðu þeir sammála um, hvaða aðferðir skyldi nota. Sumir vildu skera niður eins og fyrr og sem vel hafði heppnazt þá, en aðrir vildu lækna. Pestin gekk þá aðallega um Suðurlandsundirlendið, Borgarfjörð, Húnavatnssýslur og nokkru víðar, en varð þó lömuð nokkuð með niðurskurði og lækningatilraunum, svo að hún varð ekki jafnskæð og áður. En samt smáútbreiddist hún, og það er talið, að fáar séu þær sveitir, er hafi ekki smitazt, nema sennilega Skaftafellssýslur. Vera má, að einhverjar fleiri hafi ekki orðið varar sýkinnar, en þegar ég 1918 var sýslumaður í Norður-Múlasýslu, var þessi faraldur bæði í Hjaltastaðaþinghá og á Jökuldal. En sú tilraun til eyðingar kláðanum, sem gerð hefir verið rækilegust, var unnin fyrir tilstilli Páls amtmanns Briems rétt eftir síðustu aldamót og fenginn til þess norskur maður, sem áður hafði unnið að slíku í Noregi, að standa fyrir böðuninni. Voru þá reynd og notuð tóbaksböð. Áður en þessi útrýmingarboð byrjuðu var fjöldi heimila sýktur af kláðanum, en boðunin bar þann árangur, að heita mátti, að kláðinn hyrfi þá alveg í bili, og heyrðist hans varla getið. Var þá almenn ánægja yfir útrýmingarbeiðun þeirri, þótt dýr þætti í þann tíð og því kurr nokkur í fyrstu gegn henni. En þar sem ekki var nógu rækilega skoðað sauðfé næstu ár eftir böðun og sótthreinsun húsa e. t. v. ábótavant, og gögn til böðunar ófullkomin, þar sem smíða þurfti baðkörin þá jafnframt, þá verður að viðurkenna, að tilraun þessi bar prýðilegan árangur og stórum betri en menn bjuggust við. Ég kem að því aftur, að nú er kláðinn hvergi nærri í rénun, heldur virðist hann þvert á móti færast í aukana. Árlega verður nú að verja stórfé til lækninga kláðasjúku sauðfé; t. d. hefir ríkissjóður orðið að greiða á síðastl. ári á 8. þús. kr. til baðlyfjakaupa til útrýmingar fjárkláðanum. Og þó er það minnst af þeim kostnaði, er telja verður, að kláðinn hafi í för með sér, því að fjáreigendur verða að leggja annað eins til, og ekki minna, og þar, sem tvíboðun fer fram, verður að gefa fénu um og eftir boðunina miklu meira og betra fóður en áður, og er það reynt, að fé heldur sig verr að beit á vetrum eftir að hafa verið tvíbaðað og sætt innistöðum, sem þeim böðunum fylgja. Og það fé, sem fær þessi óþrif í sig, verður lélegra til frálags, og ullin verður stórum lakari af því, sem veikina hefir tekið. Nú finnst mér vera töluverð ástæða til þess, að einmitt á þessum tímum verði útrýmingarböðun látin fara fram, því að auk þess sem vitanlegt er, að þetta er vilji og áhugamal margra sýslna, að losna við þennan vágest, þá eru núna einmitt tímar til þess að það geti farið fram. Nú hefir í sumum hlutum landsins verið framúrskarandi grasar og hey skaparsumar, og lítur út fyrir, að þessi vetur verði með þeim blíðari, svo að gera má ráð fyrir, að heygnægðir bænda verði með betra móti, og ef sæmilegur heyskapur verður næsta sumar, ætti ásetningur bænda næsta haust að verða með albezta móti. Tel ég rétt, að tilraunin verði gerð næsta vetur, því að alltaf þarf að eyða töluvert meiru af heyi, þegar kláðaboðun fer fram. Við flm. leggjum mikla áherzlu á, að undirbúningur allur verði sem vendilegastur, að rannsakað verði rækilega, hvert baðlyf er öruggast til útrýmingar, og leitað verði till. og umsagna héraðsstjórna og dýralækna, og þær till. hafðar, sem viturlegastar teljast, og settum reglum verði rækilega fylgt bæði um böðun og sótthreinsun fjárhúsa, svo og um innistöður fjár. Ég hefi þá sterku von, þar sem útrýmingarböðunin um síðustu aldamót reyndist svo gagnleg við þau skilyrði, sem þá voru fyrir hendi, að árangurinn verði nú, með þeim skilyrðum, sem núna eru, sá, að takast megi að gereyða kláðanum, ef einhuga er gengið að útrýmingu hans og alþjóð verður sammála um nauðsyn þessa máls.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum um þetta, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til landbn.