22.11.1933
Neðri deild: 16. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (1162)

40. mál, útrýming fjárkláðans

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Á síðasta þingi kom fram þáltill., sem fór í svipaða att og þessi. Sú till. var þó í því formi, sem ég felldi mig betur við en er á þessari till. har var gert ráð fyrir, að ríkisstj. léti fyrst fram fara rannsókn um útbreiðslu fjárkláðans, því það liggja ekki fyrir neinar skýrslur um það efni, sem hægt er á að byggja. Ég veit því ekki, á hverju er byggt, þegar komið er fram með till. um að lata fara fram útrýmingarböðun í þeim héruðum, sem fjárkláði er í. Ég veit engan mann, sem getur um það sagt, hvaða héruð það eru og hver ekki. Eftir upplýsingum frá dýralæknum eru allar sýslur landsins a. m. k. grunaðar, og ekki er víst um, að nokkurt hérað á landinu sé algerlega laust við fjárkláðann, nema Vestmannaeyjar.

Mér skilst eftir till., að ætlazt sé til, að farið sé að nokkru leyti eftir umsögn sýslunefnda. Nú er hægt að hugsa sér, að þær sýslur, sem harðast hafa orðið úti af völdum kláðans, óski eindregið eftir boðun hjá sér, en aðrar sýslur við hliðina á þeim, þar sem ekki hafa verið mjög mikil brögð að fjárkláða, leggi aftur á móti böðun. En þá hygg ég, að árangurinn geti orðið vafasamur. Útkoman gæti orðið sú, að önnurhver sýsla fengi boðun hjá sér, en í hinum væri óbaðað. Árangurinn mundi kannske verða sá, að kláðinn minnkaði um stundarsakir, tvö til þrjú ár, en sækti svo aftur nákvæmlega í sama horfið. Nú er ekki lengur um það að ræða, sem áður var, að ófærar ar hamli samgöngum sauðfjár milli héraða. Nú eru slíkar ár nær allar brúaðar. Má því búast við, ef kláðinn verður eftir á nokkrum stöðum, að þá breiðist hann brátt út aftur. Ég hygg því, að ef mál þetta á að fá sómasamlega afgreiðslu, þá þurfi það meiri undirbúning heldur en hér er gert ráð fyrir. Ég hygg meira að segja, að það þurfi að setja um það sérstök lög, ef takast á að útrýma fjárkláðanum til fulls, af því svo mikið er undir því komið, að eftirlitið sé strangt með því, að hvergi komist að trassaskapur eða sviksemi í framkvæmd verksins; annars er allt unnið fyrir gýg.

Ég geri ráð fyrir, að allir séu sammála um það, að nauðsynlegt sé að útrýma fjárkláðanum, en menn verða að gera sér ljóst, að það er dýrt. Allsherjarkláðaböðunin, sem fór fram á árunum 1903 til 1905 og kennd hefir verið við Myklestad, kostaði mikið á fjórða hundrað þús. kr., og það er ekki ástæða til að gera ráð fyrir, að útrýmingarböðun nú, sem gagn væri að, kostaði minna fé. Því tel ég það meira en litla bjartsýni, með tilliti til afgreiðslu síðasta þings á fjárl., ef menn treysta ríkissjóði nú til þess að leggja í slíkan kostnað án þess að nokkur fjárveiting sé fyrir hendi og án þess að undirbúningsrannsóknir hafi farið fram, og því siður áætlun um kostnað verksins. Ég get tekið undir það með hv. þm. Borgf., að vel er hægt að halda kláðanum nokkurn veginn í skefjum með því einu að skerpa eftirlit með þrifaböðun og með því að ríkissjóður leggi til baðlyf, þar sem kláðinn er svo mikill, að ástæða þykir til að tvíbaða. Ég vil þó fyrir mitt leyti frekar hallast að þeirri stefnu, ef á annað borð á að verja miklu fé til útrýmingar kláðanum, að þá verði látin fara fram fullkomin útrýmingarböðun, því reynslan hefir sýnt, að það gefur lítinn árangur að taka einstök héruð og landshluta fyrir, ef ekki fer samtímis fram útrýmingarböðun um land allt.

Á árunum 1920–1922 var t. d. varið fullum 100 þús. kr. úr ríkissjóði til útrýmingarbaðana í ýmsum héruðum, og virðist svo sem arangur hafi orðið lítill eiga alls enginn. Ég tel það vel við eiga, að umr. um till. sé frestað og henni vísað til landbn. Væri þá gott, ef n. vildi athuga það nákvæmlega, hvora stefnuna hún teldi heppilegri í þessu máli, að káka áfram við útrýmingarbaðanir í einstökum héruðum eða landshlutum, sem getur kostað ríkissjóðinn eitt til tvö hundruð þús. kr. í hvert sinn, eða að stefna að því, er fjárhagur leyfir, að gera allsherjarútrýmingarböðun.