28.11.1933
Efri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (1166)

11. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Frsm. ( Páll Hermannsson):

Gert er ráð fyrir, að á næsta sumri verði lögð símalína frá Egilsstöðum á Völlum að Skjöldólfsstöðum í Jökuldal. Verður hún 50–60 km. og mun liggja þvert yfir tvo hreppa Norður-Múlasýslu, Fellahrepp og Tunguhrepp. Það er nú svo ástatt, að þótt Jökuldalshreppur sé með stærstu hreppum á landinu og líklega lengstur allra, þá er þar engin símalína enn, þó að eitthvað verði þar bætt úr næsta ár. Fellahreppur er aðalhreppurinn, með um 30 búendum, og hefir engan síma, en Tunguhreppur, sem er neðar í héraðinu, milli Lagarfljóts og Jökulsár, fékk fyrir svo sem þrem árum símalínu frá Hjaltastað fyrir austan fljót yfir að Kirkjubæ, sem er vestanvert við Lagarfljót. Þessi sími kemur Tunguhreppi að nokkru gagni, enda þótt fjarlægðin frá innsta bænum í Tunguhreppi út að Kirkjubæ sé a. m. k. 20 km. Ég fer fram á bað í brtt. minni á þskj. 190, að þegar Skjöldólfsstaðalínan verður lögð, þá verði lögð hliðarlína að Ranga í Tunguhreppi. Þar situr hreppstjórinn, maður, sem vinnur talsvert af opinberum störfum og þarf því oft á síma að halda, og þá stöð gætu um 10 bæir í þessum hreppi notað. Vegalengdin, sem við bætist, er nálægt 4 km. Væri þetta mikið hagræði fyrir hreppsbúa. Hefi ég fært þetta í tal við landssímastjóra, og sagði hann mér, að þetta myndi ekki valda því, að Skjöldólfsstaðalínan yrði ofsetin, þó að þessi lína myndi vitanlega bæta við starfið á aðallínunni. En það er annars hugsað til að framlengja Skjöldólfsstaðalínuna norður yfir Hólsfjöll, og myndi sú lína tryggja betur landssambandið og starfa betur en línurnar meðfram Haug og meðfram ströndinni.

Ég hefi að vísu ekki borið þessa till. formlega undir samnm. mína, en ég held þó, að ég megi gera ráð fyrir því, eftir einkaviðtali, að þeir séu henni ekki mótfallnir.