13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (1192)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

1192Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal ekki bera á móti því, að eitthvað kunni að mega finna að um framkvæmd innflutningshafta og gjaldeyrisráðstafana. Slík lög eða ráðstafanir er erfitt að framkvæma svo, að ekki megi að finna, einkum í byrjun. Ég skal ekki heldur bera á móti því, að betra sé að hafa viðskiptin algerlega óþvinguð, ef þess er kostur. En eins og öllum er kunnugt, þá er ekki venja að beita innflutnings- og gjaldeyrishömlum nema sérstakar ástæður knýi til þess, enda hafa þær ástæður verið fyrir hendi hér á landi nú síðustu árin í ríkum mæli.

Innflutningshöftin voru sett til þess að tryggja, að sá erlendi gjaldeyrir, sem til felli, nægði til brýnustu þarfa. Og síðan hafa svo ýmsar aðrar ástæður bætzt við til ákvörðunar um það, hvernig verja skuli gjaldeyrinum, t. d. hverskonar vörur skuli fluttar inn í landið, þegar kaupgeta þjóðarinnar er takmörkuð, og hvaðan þær skuli keyptar. Gerbreyting hefir orðið á síðastl. tveimur árum í viðskiptum þjóða á milli. Það hefir aldrei verið meiri nauðsyn en einmitt nú til þess að geta ráðið við það, hverjar vörur eru fluttar inn í landið og frá hvaða löndum.

Þeir ágallar, sem hv. 3. þm. Reykv. taldi á framkvæmd innflutningshaftanna, geta alveg eins komið fram í sambandi við gjaldeyrisskömmtunina. Og ef á að nema burt þá agnúa, sem hann talaði um, þá nægir það alls ekki að fella niður innflutningshöftin, heldur verður auk þess að nema allar gjaldeyrishömlur úr gildi.

Það má vel vera, að fluttar hafi verið inn ýmsar mismunandi tegundir af rakvélablöðum og andlitscréme, en lítið af rakhnífum og rakcréme, út í það skal ég ekki fara, enda er ekki hægt að girða fyrir smávægilegt misræmi að fullu, en hitt nær engri átt, að hverfa frá því að hafa stjórn á innflutningnum af þeirri ástæðu.

Ég skal ekki fara ýtarlega út í þau einstöku dæmi, sem hv. flm. nefndi um þær nýju tegundir, sem nú væru fluttar inn af hljóðfærum, ritvélum, bílum o. fl.; ég hygg, að hann geri öllu meira úr því en ástæða er til. En það er rétt, að heppilegra mun að velja hinar betri tegundir og hafa þær tiltölulega fáar. Annars hefir innflutningsnefnd veitt svo fá innflutningsleyfi fyrir hljóðfærum og bílum, að allt tal hv. flm. um tegundafjölda á þeim sviðum getur ekki átt við rök að styðjast. Innflutningsleyfi fyrir hljóðfærum hafa nær því eingöngu verið veitt gömlum hljóðfæraverzlunum, sem vafalaust hafa notað sömu verzlunarsambönd og áður. Aftur á móti er það að segja um innflutningsleyfi fyrir bílum, að þau hafa aðeins verið veitt einstökum mönnum vegna sérþarfa þeirra, og þó í mjög smáum stíl. Ég geri einnig ráð fyrir, að notuð hafi verið eldri viðskiptasambönd um innkaup á þeim bílum, að öðru leyti en því, að í einstökum tilfellum hafa menn á síðastl. ári komizt að sérstaklega hagfelldum kaupum á eldri bílum fyrir lagt verð. En bílakaupin hefðu efalaust gleypt mjög mikið af gjaldeyri síðastl. 2 ár, ef innflutningshöftin hefðu ekki verið þar til varnar.

Það mun rétt, að nokkur skortur hafi verið á smjöri hér í bæ á þessu hausti, og stafar það af þeim sérstöku ástæðum, að á síðasta þingi voru settar reglur um blöndun á smjörlíki. Innlendar smjörlíkisverksmiðjur hafa notað meira af íslenzku smjöri til blöndunar en búizt var við í upphafi. Nú hafa stjórninni borizt beiðnir um að leyfa innflutning á smjöri. Stj. leitaði umsagnar Búnaðarfél. Ísl. og fleiri aðila um það atriði, og niðurstaðan hefir orðið sú, að smjörbúunum sjálfum yrði veitt leyfi til þess að flytja inn smjör. Mér er sagt af forstöðumönnum smjörbúanna, að þetta muni væntanlega ekki koma fyrir aftur. Smjörbúin muni sennilega geta á næsta ári fullnægt þörfinni.

Hv. flm. kvartaði um það, að gamlar verzlanir hefðu orðið að hætta vörupöntunum og viðskiptum, en nýjar verzlanir aftur tekið við innflutningi á sömu vörutegundum. Ég skal ekkert fullyrða um það, nema einstök dæmi megi benda á. En meginregla innflutningsnefndarinnar hefir verið sú, að leyfa hinum eldri innflytjendum og verzlunum vörupantanir í hlutfalli við vöruumsetningu þeirra. (JónÞ: Það er hægt að benda á brot þeirrar reglu). Það er ótvírætt, að þessi hefir verið meginregla nefndarinnar. Óhlutdrægur dómur um það, hvort höftin hafi fremur valdið atvinnuleysi eða aukið atvinnu í landinu, getur ekki fallið á annan veg en þann, að þau hafa aukið atvinnuna til muna, einkum á sviði iðnaðarins í bæjunum. Það yrði þröngt fyrir dyrum hjá iðnaðarmönnum í bæjunum, ef höftin væru felld úr gildi, eigi síður en hjá bænd um og öðrum, sem framleiða vörur til sölu innanlands. Það má öllum vera ljóst, hversu höllum fæti framleiðendur stæðu, ef þeir ættu að keppa við erlenda framleiðslu á þeim markaði, sem hér er í bæjunum.

Þegar svo er komið, að búið er að reisa háa tollmúra til verndar landbúnaðinum í flestum löndum, þá er undarlegt, að því skuli vera haldið fram hér, að þjóðfélaginu og löggjafarvaldinu beri engin skylda til að stuðla að því, að bændur fái sem bezt verð fyrir afurðir sínar og geti lifað bærilegu lífi.

En það er ekki eingöngu þetta, sem á veltur, að haldið sé við atvinnu í bæjunum og bændunum gert kleift að framleiða búnaðarafurðir, heldur hitt, að öll viðskipti okkar og verzlun við aðrar þjóðir er í svo mikilli hættu, að við megum engu vopni sleppa, sem tök eru a, til þess að tryggja útflutningsvörum okkar markað. Í öllum löndum Norðurálfunnar er nú reynt að tryggja útflutningsverzlunina, á þann hátt, að reistar eru fastari skorður við innflutningi vara en áður hefir tíðkazt, og þá fæ ég ekki séð, að hættandi sé á það fyrir okkur að varpa fyrir borð gjaldeyrishöftunum og öðrum meðulum, sem við höfum til þess að varðveita útflutninginn og tryggja markað fyrir sjávarafurðir okkar erlendis. Það eru ekki eingöngu iðnaðar- og landbúnaðarmenn, heldur útgerðarmenn og sjávarbændur, sem eiga mikið í húfi um það, að verzlunarviðskiptin við aðrar þjóðir falli eftir ákveðnum farvegum. Að vísu má segja, að verzlunarstéttin eigi um sárt að binda út af innflutningshöftunum; ég skal sízt neita því. Það er ekki skemmtilegt að þurfa að heita lögþvingun. En þó hygg ég, að hægt sé að sýna fram á, að verzlunarstéttinni sé það líka fyrir beztu, að löggjafarvaldið geri allt, sem unnt er, til þess að tryggja atvinnuvegina í landinu og útflutninginn. Um leið og greitt er fyrir iðnaðarmönnum, bændum og sjómönnum, þá nýtur verzlunarstéttin þess líka. Atvinnurekstur landsmanna gerir henni yfirleitt mögulegt að verzla. Svona er því í raun og veru háttað, þó að ýmsir virðist ekki koma auga á það, en einblíni á það yfirborðsfrelsi, sem verzlunarstéttin virðist hljóta með afnámi innflutningshafta.

Af þessum ástæðum, sem ég hefi nú rakið, tel ég mjög varhugavert að afnema innflutningshöftin. Og þó að gjaldeyrisskömmtunin væri látin halda áfram í fullu gildi, þá geta samt safnazt skuldir erlendis, sem bankarnir ættu mjög örðugt með að greiða, og gætu jafnvel ekki greitt á réttum tíma. Innflutningshöftin eru þess vegna nauðsynleg viðbót við gjaldeyrisskömmtunina, til þess að koma í veg fyrir óþarfa skuldasöfnun erlendis.

En ég legg höfuðáherzluna á það, að viðskiptalíið hefir yfirleitt tekið svo miklum stakkaskiptum á síðustu árum um allan heim, að við megum ekki sleppa neinu vopni, sem við höfum ráð á í þeirri baráttu.