13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (1196)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal ekki lengja mjög umr., en vil byrja á því að minnast á það, sem hv. 1. landsk. sagði um gang tolla- og haftamálanna á Alþ. 1924. mér skildist á honum, að þá hefði staðið deila um, hvort höfð skyldi tolla- eða haftastefna, og að niðurstaðan hafi orðið sú, að þingheimur hafi hallazt að tollastefnunni og hún hafi algerlega sigrað. Þess vegna álítur svo hv. þm., að við eigum nú að taka sömu stefnu.

Á Alþ. 1924 var borið fram frv. um verðtoll, og var það eingöngu gert til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Upphafsmenn þessa frv. voru tveir hv. núv. hm. Sjálfstfl., og frv. var stutt af framsóknarmönnum, í þeim tilgangi að jafna tekjuhalla fjárl. Svo er það ekki fyrr en rúmu ári síðar, 1925, sem innflutningshöftin eru afnumin, og þá er þessi sami þm. búinn að vera ráðh. í eitt ár asamt tveimur sjálfstæðismönnum, frá því að tolllagafrv. var fram borið. Þeir treystu sér því ekki til að afnema höftin fyrr en eftir heilt ár. Og hvers vegna voru höftin þá afnumin? Það var vegna þess, að erlendur gjaldeyrir streymdi inn til bankanna og við sjálft lá, að bankarnir hræddust alla þessa peninga. Höftin voru því afnumin eingöngu vegna þess, að ekki þurfti að spara gjaldeyrinn, en ekki af því, að ári áður höfðu verið sett lög um verðtoll.

Ég minnist þessa sérstaklega vel, af því að á þinginu 1925 varð ég fyrstur manna af framsóknarmönnum til þess að kveða upp úr um það í Nd., að nú þyrfti ekki lengur að halda í höftin. Ég man, að það glaðnaði yfir þeim, sem óttuðust, að framsóknarmenn kynnu þá að hafa aðra stefnu, og höftin lifðu ekki lengi eftir þetta. Nú vildi ég feginn, einnig í þetta skipti, verða einn af þeim fyrstu, sem lýstu yfir því, að höftin væru orðin óþörf, en það get ég ekki fyrr en gjaldeyririnn er orðinn nógur, eins og hann sannarlega var orðinn þá. Gjaldeyririnn var orðinn það mikill seint á árinu 1924, að ef stj. hefði viljað hraða sér með að afnema höftin, þá hefði mátt gera það fyrr. Í þetta skipti hefir verið bent á að hafa sömu aðferð og stj. Jóns Þorlákssonar hafði þá, að afnema ekki höftin fyrr en gjaldeyririnn er orðinn nógur, en því miður er langt frá því, að við séum komnir í sömu aðstöðu nú og stj. hafði í árslok 1924 og ársbyrjun 1925. Þetta þykir mér gott fordæmi um það, hvernig stj. eigi að haga sér í þessum málum nú.

Þá hafa hv. 1. landsk. og hv. 3. þm. Reykv. lagt áherzlu á það, að höftin hafi enga þýðingu til að tryggja útflutning okkar eða kaup annara þjóða á honum. Þeir fullyrtu, að höftin spilltu aðeins, sérstaklega hv. 3. þm. Reykv. Ég vil ráðleggja hv. þm. að nota annað orð í þessu sambandi. Ef hann notar orðið innflutningsleyfi, þá skilst honum, að leyfin, sem þýða, að innflutningur getur ekki orðið á leyfis, þau geta hjálpað okkur í utanríkisverzlun okkar.

Ég hefi ekki orðið var við, að stj. nokkurra okkar viðskiptaþjóða hafi amazt við innflutningshöftum okkar. Þegar ég spurðist fyrir um þetta hjá ráðuneyti utanríkisverzlunarinnar í London, var mér svarað á þessa leið: „Þið þurfið ekki að óttast, að neinar ráðstafanir verði ykkur til skaða, sem þið gerið til þess að vera vissir um, að þið séuð borgunarmenn fyrir ykkar innfluttu nauðsynjavörum, en þið skuluð óttast það mest, að erlendis myndist verzlunarskuldir, sem þið getið ekki borgað“.

Við skulum hugsa okkur eins og hér hefir verið talað um, að gjaldeyrisskömmtun verði höfð áfram, en innflutningshöft afnumin. Skilyrði fyrir gjaldeyrisleyfi yrði þá ekki aðeins, hvaða vara er keypt, heldur einnig frá hvaða löndum, og kæmi þá í alveg sama stað niður og þó höftum væri haldið áfram.

Það er nú ekki svo, að þessum höftum sé eingöngu beitt um alóþarfar vörutegundir. Þeim er líka beitt um vörur, sem þjóðin getur verið á um tíma, af því að birgðir eru til af þeim í landinu, og eins ef ekki er um alveg nauðsynlega vöru að ræða. Þannig er það með höftin, sem sett voru árið 1920, að undir þátt heyra ýmsar vörutegundir, svo sem vefnaðarvara, skófatnaður og margt fleira, sem margar viðskiptaþjóðir okkar í Miðjarðarhafslöndunum t. d. mundu helzt vilja selja okkur. Það er því augljóst, að höftin geta haft mikla þýðingu fyrir verzlun okkar við Miðjarðarhafslöndin. meðan við höfum höftin í einhverri mynd, þá höfum við og tök á að stjórna því, hvaðan vara er keypt.

Þegar höftin voru sett 1931, var að vísu ekki þessi tilgangurinn, heldur voru þau sett til þess að hægt væri að fá gjaldeyrinn til að hrökkva fyrir brýnustu nauðsynjum. Síðan hafa svo verzlunaraðferðir Norðurálfuríkjanna breytzt svo gersamlega, að höftin hafa fengið nýjan tilgang, og jafnnauðsynlegan þeim, sem fyrir var. Af þessu er það ljóst, að höftin koma einmitt mjög mikið við alla okkar utanríkisverzlun, hvort sem um er að ræða útflutning eða innflutning, og innflutningshöftin eru þannig nauðsynlegt vopn í viðskiptabaráttunni.

Eins og nú er ástatt í landinu, þá krefjast hagsmunir bænda, útgerðarmanna, iðnaðarmanna og sjómanna þess, að við köstum ekki frá okkur þessu vopni, sem getur reynzt okkur hvað bezt. Mín reynsla er sú, að fjöldi kaupmanna sætti sig við þessa þjóðarnauðsyn. Menn eru ánægðir að vita, að framkvæmdum laganna er hagað eftir föstum reglum, og vita, að reynt er á allan hátt að sneiða hjá misrétti.