24.11.1933
Neðri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (1197)

59. mál, styrkingu Vestmannaeyjakaupstaðar til kaupa á dýpkunarækjum

Pétur Ottesen:

Það er ekki mín meining að mæla gegn því, að nokkru fé verði varið til þess að kaupa dýpkunartæki; það er síður en svo. En ég vildi benda á það, að nú þegar er byrjað að framkvæma byggingu allmargra hafna á landinu, og það leiðir af sjálfu sér, að það mun vera einn verulegur þáttur í því starfi, að hægt sé að fá dýpkunartæki á þessa staði.

Vitamálastjórninni hefir verið það ljóst fyrir löngu, að slík framkvæmd er mjög erfið án þess að hafa tæki á þeim stöðum. Hingað til hefir þurft að fá leigð dýpkunartæki frá útlöndum í hvert sinn, sem á þeim hefir þurft að halda. Þess vegna er það, að fyrir sjútvn. hafa á undanförnum þingum legið tillögur frá vitamálastjóra, þar sem lagt er til, að fé yrði veitt til þess að kaupa dýpkunartæki. Nú vildi ég gera það að till. minni, að málinu verði vísað til sjútvn. og hún taki það til athugunar og tali um það við vitamálastjórnina; hvort ekki væri rétt að gera nokkru víðtækari ráðstafanir í þessu efni, þannig að keypt verði dýpkunartæki, sem hægt væri að nota kringum landið, þar sem þeirra væri þörf. En ég vil ekki láta í þessu felast neina meinasemi gegn því, að bætt verði úr þörf Vestmannaeyja í þessu efni, heldur að reynt sé að sameina sem mest af þeim þörfum, sem fyrir hendi eru, með þeirri framkvæmd, sem hér yrði ráðizt í.