02.11.1933
Sameinað þing: 1. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

Rannsókn kjörbréfa

Bjarni Snæbjörnsson:

Það er aðeins eitt atriði, sem ég ætla að upplýsa í þessu máli, sem hefir verið deilt dálítið um, en ég álít, að skipti ekki miklu máli. Það er um þau atkvæði, sem veitt var aðstoð með. Þau voru ekki nema 6 og þau ættu í sjálfu sér alls ekki að hafa áhrif á úrslit kosningarinnar.

En til þess að upplýsa þetta mál fyrir hv. þm., vil ég geta þess, að því er þannig háttað, að seint um kvöld var komið með mann úr Alþfl. til bæjarfógetans í Hafnarfirði og beðið um aðstoð við kosningu, en því var neitað. En þá sama kvöldið var farið að tala um það, hvort það væri leyfilegt að veita aðstoð við kosningar utan kjörstaða eins og á kjörstað. Þá var það, að bæjarfógetinn hringdi strax morguninn eftir til dómsmálaráðuneytisins og fulltrúa lögmanns hér í Rvík og fékk þær upplýsingar, að það væri leyfilegt og tíðkaðist hér. Strax þegar hann var búinn að fá álit dómsmrn. og fulltrúa lögmannsins hér í Rvík, þá skýrði hann frá því á báðum kosningaskrifstofunum í Hafnarfirði, að það væri heimilt að aðstoða og að hann veitti aðstoð við kosningar, og það er sannanlegt, að báðir flokkarnir fá á sama tíma frá bæjarfógetanum þær upplýsingar, að hann veiti aðstoð við kosningar. — Það er ekki annað, sem ég ætla að leggja til málanna, en þetta: að sýna fram á, að báðir flokkarnir fá á sama tíma þessar upplýsingar hjá bæjarfógeta, svo ekki er hægt að segja, að annar flokkurinn sé beittur rangindum frekar en hinn.