14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (1216)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Jón Jónsson:

Ég skil ekki þá fullyrðingu hv. flm., að í umræddum 1. frá 8. marz 1920 felist ekki heimild til að takmarka innflutning vara, sem keppa við íslenzkar landbúnaðarvörur. Hann sagði, að þau næðu aðeins til óþarfavarnings. En ég fæ ekki betur séð en að það sé líka óþarfavarningur, sem til landsins flyzt, ef nóg er til af honum í landinu fyrir, framleitt af landsbúum. Stjórnarvöldin hafa bannað innflutning á þesskonar varningi, en það hefðu þau ekki getað, ef ekki hefði verið heimild til þess í lögum.

Hann hélt því líka fram, að höftin verkuðu ekki nema fyrst og að nú væri innflutningur orðinn miklu meiri en í fyrra. Það má vera rétt, en þetta stafar ekki af því, að innflutningshöftin verki ekki nokkuð ennþá, heldur eru nú verzlunarskilyrði þjóðarinnar orðin betri en áður.

Hv. flm. sagði það fjarri sanni, að frv. væri hnefahögg í garð landbúnaðarins, og hv. þm. Hafnf. sagði, að ef svo væri, þá mætti laga það. Auðvitað mætti laga það með því að fella frv., og líka með því að flytja nógu róttækar brtt. við það. En það getur ekki verið tilgangurinn. Frv. liggur nú einu sinni svo fyrir, að með því eru gerðar ráðstafanir til að drepa landbúnaðinn, en engar til að vega þar á móti.

Það, sem hv. 6. landsk. sagði um þetta mál, sýnir, að hann er því ekki nógu kunnugur. Vænti ég því, að hv. 6. landsk. og fleiri deildarmenn, sem eru málinu ekki nógu kunnugir, athugi, hvernig þetta verkar, áður en þeir greiða frv. atkv. sín lengra áleiðis.