14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (1219)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Í sambandi við sögu gömlu haftanna gat ég þess, að á þingi 1924 hefði ekki orðið vart verulegra deilna milli haftastefnu og tollastefnu, heldur hefði Framsókn og Íhald staðið saman um að skella á verðtolli og ári síðar um að afnema höftin, af því að þá var gjaldeyrir orðinn nógur. Því er ekki um það að ræða, að þingið hafi skipzt í flokka um þetta mál.

Árið 1923 var komið í öngþveiti gjaldeyrismálunum. Þá voru höftin sett á, en allt of seint. Þau voru þá orðin að knýjandi nauðsyn. Þau fengu að standa í heilt ár eftir að íhaldsstj. komst til valda, eða þangað til öruggt var, að gjaldeyrir væri nægur. Þetta sýnir, hvaða stefnu þeir verða að taka um þessi mál, sem ábyrgð bera.

Ég trúi því ekki, að hlaupa myndi stór skriða innflutnings, þó að höftin yrðu afnumin. Sú skoðun, sem verið er að koma inn hjá fólki, að hér sé verið að skapa eitthvert ótakmarkað frelsi, er röng. Hér er um það að ræða að klippa af gjaldeyrisraðstöfunum. Veit ég þó, að hvorugur bankinn væri fús á að framkvæma gjaldeyrishömlurnar án þess hjálparmeðals, sem í höftunum felst. Því má ekki telja fólki trú um, að það myndi njóta einhvers fullkomins og óskoraðs frelsis, þótt frv. gengi í gegn. Afnám allra hafta yrði öllum til bölvunar, þegar fram í sækti.

Hv. 3. þm. Reykv. fullyrðir, að höftin hafi spillt fyrir okkur hjá öðrum þjóðum, að þau séu óvinsæl hjá sumum af viðskiptaþjóðum okkar. Það mun vera rétt, að þau séu óvinsæl hjá sumum mönnum sumra þjóða. En þau hafa ekki spillt fyrir viðskiptum okkar ennþá. Þær kröfur, sem fram hafa komið af hendi annara þjóða um, að við keyptum af heim vörur, hafa ekki verið bundnar við ákveðið vörumagn, heldur ákveðna hundraðstölu af þurftum okkar. Verður því ekki með sanni sagt, að höftin hafi spillt fyrir viðskiptum okkar út á við.

Segjum nú, að við hefðum ráð hv. 3. þm. Reykv. og segðum við þjóð, sem vildi fá 50% af markaði okkar fyrir ákveðna vörutegund: „Við munum afnema öll höft. Eruð þið ekki ánægðir með það?“ Þeir myndu sennilega svara, að þeim væri engin þægð í slíku, þeir væru ekki að framkvæma neina fríverzlun í heiminum, heldur vildu komast að samningum við okkur um þennan ákveðna hluta af því, sem við þyrftum að flytja inn af vörunni. Hömlurnar skapa möguleika fyrir framkvæmd slíkra samninga.

Hv. þm. sagði það ekki undarlegt, þótt ég hefði ekki á ferðum mínum heyrt menn kvarta undan innflutningshöftunum, því að þau væru eins dæmi. Þetta er rangt. Þarf ekki að leita lengra en til Danmerkur til þess að finna samskonar höft og her. Sama er að segja um Tjekkóslóvakíu, nema hvað höftin eru þar strangari. En það er satt, að margar aðrar þjóðir hafa annarskonar höft en við, ýmist „kontingent“ eða hátolla, og eru þau höft engu linari en sú aðferð, sem við beitum.

Okkar höft eru í raun og veru framkvæmd sem „kvóti“. Manni er leyft að flytja inn vissan %-hluta af eldri innflutningi hans. Býst ég við, að aðrar þjóðir muni í framtíðinni reyna að koma okkur inn á þá braut að miða innflutninginn við viðskiptalandið. Ég kann ekki nema eitt ráð við slíku. en það er að reyna að hafa sem mest vald á innflutningnum sjálfir, um leið og við sýnum öðrum bjóðum, að við teygjum okkur eins langt til samkomulags og sanngirni mælir með.

Þá vil ég nefna það, að höftin eru sumstaðar í því formi, að 50%–100% tollur er lagður á tilteknar vörur. Þannig er t. d. í Þýzkalandi. Þarna er reyndar ekki um hreina haftastefnu að ræða, heldur ókleifa tolla, sem koma í sama stað niður og algert bann. Innflutningshöftin eru því ekki óþekkt fyrirbrigði, heldur eiga þau sér stað með flestum þjóðum.

Hv. þm. sagði, að við mættum ekki halda inn á þá braut að miða innflutning okkar við tiltekin lönd. Ég gæti tekið undir við hann í þessu, ef við værum sjálfráðir í því efni. En við verðum að laga okkur eftir kringumstæðum, sem eru. Þær eru svo ríkar, að við getum ekki farið eftir okkar vilja einum saman, en neyðumst til að ganga út frá því ástandi, sem ríkir í Norðurálfunni. Hvernig hefir ekki verið á flestum alþjóðaráðstefnum? Þar hefir hugsjóninni frjáls verzlun og afnám tolla verið brugðið upp af sérfræðingum, en á þjóðþingunum hefir svo allt orðið á annan veg. Eins er um okkur. Við getum ekki „realiserað“ Þessa hugsjón í okkar litla þjóðfélagi innan um tóma syndara, sem ekki sigla eftir sömu stjörnum.

Þau orð mín eru óhrakin, að vegna landbúnaðarins neyðumst við til að halda í höftin og að okkur sé það skylt vegna iðnaðarmanna og annara. Óhrakið er það líka, að verzlunarpólitíkin í álfunni er þannig, að við verðum að halda þessu vopni. Það er óhrakið, að hagsmunir allrar þjóðarinnar standa í nánu sambandi við það, hvort þessari heimild verður haldið eða ekki. Aldrei hefir verið jafnmikil ástæða fyrir „restriktions“-pólitík sem nú. Hafi verið ástæða til þess 1920 að ná tökum á innflutningnum, þá er nú tíföld ástæða til þess.