16.11.1933
Neðri deild: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. síðari hl. (Thor Thors):

Eins og hv. 1. þm. S.-M. gat um, varð samkomulag um það í stjskrn., að við skyldum skipta með okkur framsögu þessa máls. Hér er um sameiginlegar brtt. frá allri n. að ræða, en þau atriði, sem urðu að ágreiningsmáli innan n., munu koma fram við 3. umr.

Ég sé ástæðu til að geta þess, að samvinna var hin bezta innan n. með öllum flokkum. Allir voru sammála um að hraða afgreiðslu málsins eins og frekast var unnt, og vissulega létti það mjög undir starf n., að kosningalagafrv. var undirbúið af mönnum úr öllum flokkum og lá þannig fyrir sem samkomulagstilraun.

Áður en ég vík að einstökum atriðum frv. finnst mér rétt að fara fáeinum orðum um frv. í heild. Eins og kunnugt er, er þessu frv. sniðinn ákveðinn stakkur, og sá stakkur er breyt. sú á ákvæðum stjórnarskrár vorrar um skipun Alþingis og kosningarrétt til Alþingis, sem samkomulag varð um á síðasta þingi meðal allra flokka þingsins. Þessi breyt. miðar að því að tryggja hið flokkslega réttlæti hér á þingi meira heldur en áður hefir átt sér stað og rýmka kosningarréttinn að verulegum mun. Um hið nýja skipulag þarf ekki að fara mörgum orðum, en því ber að fagna, að þetta spor hefir verið stigið, því það hlýtur að vera grundvöllur hins sanna lýðræðis og varanlega þingræðis, að allir flokkar fái fulltrúa á þingi í sem nánustu hlutfalli við atkvæðamagn þeirra hjá þjóðinni. Í raun og veru er það takmark þessa kosningalagafrv. að skapa lifandi kerfi, ef svo má að orði kveða, innan þess stakks, sem stjskr. sníður, og jafnframt að tryggja sem bezt hið nýja skipulag, sem ætlazt er til, að komi til framkvæmda þegar stjórnarskrárbreyt. öðlast gildi. Þetta hvorttveggja hygg ég, að hafi tekizt sæmilega með því frv., sem hér liggur fyrir, og um það mun ekki verða deilt í framtíðinni, að það spor, sem nú er stigið, er fram á við, og þau nýju spor, sem stigin kunna að verða á komandi árum, munu verða stigin í sömu átt, en eigi aftur á bak.

Fyrsta brtt, sem mér er ætlað að ræða um fyrir hönd n., er við 95. gr. frv. og gengur í þá átt, að í stað orðsins „handarvana“ komi: „að honum sé hönd ónothæf“. Það getur valdið ágreiningi, hvað orðið „handarvana“ þýðir. Í orðabók Sigfúsar Blöndals er það þýtt „uden Haand“. Þess vegna þótti nefndarmönnum réttara að nota orðin „sé hönd ónothæf“, og er þá augljóst, að það nær einnig til þeirra manna, sem eru handlama eða geta af öðrum ástæðum ekki notað hönd sína til að merkja við á kjörseðlinum nógu greinilega, að því er þeir sjálfir telja og kjörstjórn telur upplýst.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, að n. hefir látið ákvæði það, sem áður var í l. nr. 58 1928, um atkvæðagreiðslur utan kjörstaða, og bannaði að veita kjósendum aðstoð á þeim vettvangi, haldast óbreytt. Enda þótt ýmsum nm. þyki ýmislegt mæla með því, einkum samræmis vegna við hinn almenna rétt kjósenda á kjörstað, að aðstoð megi veita einnig við kosningu utan kjörfundar, þá hafa þeir þó eigi viljað gera þetta að ágreiningsatriði í þetta sinn, og láta við svo búið standa, þar sem líka samkomulag virðist hafa verið um þetta í n., sem undirbjó frv. Því verður heldur eigi neitað, að það er meira öryggi fyrir því, að aðstoð verði ekki misbeitt á kjörfundi heldur en utan kjörfundar. Kjósandi á kjörstað á þess jafnan kost að velja á milli þriggja manna úr kjörstjórn, en kjósandi utan kjörfundar á ekkert val heldur verður að láta hinn lögskipaða kjörstjóra aðstoða sig, ef þörf krefur. Það er rétt að geta þess, að ákvæðin um aðstoð á kjörstað eru nokkuð þrengd frá því, sem áður var, þar sem nú má einungis veita aðstoð, ef um sjónleysi er að ræða eða ef kjósanda er hönd ónothæf. Áður var þetta orðað svo í 1. nr. 28 frá 1915, um kosningar til Alþingis, að aðstoð mætti veita, ef sjónleysi eða aðrar líkamsbilanir væru fyrir hendi. Er það orðalag nokkuð víðtækara. Þykir til bóta að kveða sem skýrast á um, hvenær má veita aðstoð.

Þá er 25. brtt., við 100. gr. Þar segir, að atkvgr. megi ekki slíta fyrr en 8 klst. eru liðnar frá því byrjað var að taka á móti atkvæðum, og aldrei fyrr en hálf klst. er liðin frá því kjósandi gaf sig síðast fram. Er tíminn lengdur úr 5 klst. upp í 8, og

¼klst. upp í ½ klst. Þykir rétt að gera þá breyt., til þess að sem flestir kjósendur hafi tækifæri til að neyta atkvæðisréttar síns. Er einkum ástæða til að létta þannig undir með þeim, sem í strjálbýlinu búa, því þær ástæður geta verið fyrir hendi, að allt heimilisfólkið eigi ekki heimangengt samtímis. Það má segja, að starfstími kjörstjórnanna sé nokkuð mikið lengdur með þessu nýja skipulagi, en í það þykir ekki horfandi, þegar þess er gætt, að ætlazt er til, að það sé ekki að jafnaði nema einu sinni á fjórum árum, sem kjörstjórnunum er gert þetta ómak, og hinsvegar þykir rétt, að þægindi kjörstjórnanna verði að víkja fyrir rétti kjósendanna. Við þessu ákvæði eru þó settar þær skorður, að slíta má kjörfundi eftir fimm stundir, ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn allra frambjóðendanna eru sammála um það, og svo auðvitað ef allir hafa kosið, sem á kjörskrá eru.

26. brtt. er við 101. gr. og felur það í sér, að frambjóðendur og umboðsmenn þeirra séu ekki skyldir til að bíða með að greiða atkv. þangað til allir viðstaddir hafa kosið. Hinsvegar er það ákvæði látið haldast, að kjörstjórnin sjálf skuli síðast greiða atkv., enda er þar um enga kvöð að ræða, þar sem kjörstjórnin þarf vitanlega hvort sem er að vera viðstödd þar til kjörfundi er slitið.

Þá er 27. brtt., við 103. gr. Aðalbreyt., sem í henni felst frá frv., er sú, að ekki sé nægilegt, að það „komi í ljós“, eins og það er orðað í frv., að kjósandi, sem greitt hefir atkv. utan kjörfundar, sé staddur á kjörstaðnum, heldur skuli það sannast. Að ákvæðum þessarar gr. og 99. gr. mun ég víkja síðar í sambandi við 39. brtt. n., við 145. gr.

Þá er næst 28. brtt., við 112. gr. Fer hún í þá átt, að oddvita kjörstjórnar sé ekki skylt að opna sjálfur ílátið, sem atkvæðaseðlarnir eru í, og taka úr því einn og einn seðil. Það ákvæði var í gömlu kosningalögunum, en því mun í flestum kjördæmum ekki hafa verið framfylgt við talningu atkvæða.

Þá er 29. brtt., við 114. gr., um að aftan við greinina bætist: „Sama gildir um landslista, ef kjósandi hefir á landskjörseðli greitt atkv. einhverjum frambjóðanda flokksins“.

Þetta ákvæði er til samræmis við 3. málsgr. 114. gr., um lista í Reykjavík, því að það þykir ekki ástæða til annars en að taka gilda kjörseðla, ef kjósandi hefir kosið einhvern frambjóðanda flokks á þann hluta seðilsins, er telst landskjörseðill.

Þá er næst 30. brtt., við 115. gr. Þar er sagt, að ef kjósandi í tvímenningskjördæmi, er kosið hefir frambjóðendur tveggja flokka, merkir jafnframt við landslista annarshvors flokksins, þá skuli það gildur seðill. Það þykir ekki rétt að ógilda slíkan seðil. Það, að kjósandi merkir við landslista, er hér skoðað sem ómerk athöfn.

Í þessu sambandi má geta þess, að aðalákvæðið um slíka seðla, þar sem bæði eru kosnir frambjóðandi og landslisti, er í 113. gr. frv., 5. lið, þar sem sagt er, að atkv. skuli vera ógilt, ef kosið er á sama kjörseðli hvorttveggja landslisti og frambjóðandi, eða í Rvík landslisti og listi kjördæmisins. Þetta er því aðalreglan um slíka seðla, enda er hún í samræmi við það ákvæði í frv. til breyt. á stjskr., sem segir: Heimilt er flokkum að hafa landslista í kjöri við almennar kosningar, enda greiði þá kjósendur atkvæði annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða landslista. 115. gr. er svo undantekning frá aðalreglunni, þar sem ekki er ógiltur seðill, þar sem kosinn er frambjóðandi og síðan merkt við landslista sama flokks, því þá er sú athöfn, að merkja við landslista, skoðuð sem ómerk athöfn. Hinsvegar er kjörseðill ætíð ógildur, ef með frambjóðanda flokks er merkt við landslista andstæðs flokks. Þannig mundi það vera ógildur seðill, þar sem kosinn er frambjóðandi Sjálfstfl. og samtímis merkt við landslista Framsfl.

Þá kemur 31. brtt., við 116. gr. Þar er kjörstjórnarmanni eða umboðsmanni frambjóðanda eða flokks gefinn réttur til þess að láta úrskurða vafaseðla þegar í stað.

Það mun ekki hafa verið föst venja um það, hvernig farið er með vafaseðla við upptalningu. Sumstaðar hafa þeir verið úrskurðaðir jafnóðum, en í öðrum kjördæmum geymdir þangað til síðast. Það má finna hvorri reglunni fyrir sig nokkuð til gildis. Ef vafaseðlar eru úrskurðaðir jafnóðum, er líklegt, að ágreiningur verði um fleiri seðla en ella mundi verða. Meðan á talningunni stendur og umboðsmenn frambjóðanda vita ekki, hvernig úrslitin kunna að falla, er líklegt, að þeir freistist til að gera sem flesta vafaseðla ógilda. Mundi því þessi regla verða til þess að tefja talninguna. — Hinsvegar er það hættulegt að láta vafaseðlana bíða þangað til síðast, einkum þegar svo ber við, að kosningin veltur á vafaseðlunum. Slíkt gefur tilefni til illdeilna og að kærur rísi út af kosningunni. N. hefir því orðið sammála um, að heimilt skuli vera að úrskurða vafaseðla jafnóðum.

Þá er 32. brtt., við 117. gr. Um hana er aðeins það að segja, að n. tekur hana aftur til 3. umr.

Þá er 33. brtt., við 119. gr. Það er orðabreyt. og efnisbreyt. um leið. Orðalag frv. er allt annað en n., sem undirbjó frv., hafði ætlazt til. Þetta er villa, sem hefir slæðzt inn í frv. við prentun, og hefir aldrei verið ætlazt til, að gilti önnur regla um þetta en sú, sem fram er sett með þessari brtt., en það er sama reglan og nú gildir við kosningar í Rvík og við landskjör. Er sú regla kennd við d’Hondt.

Þá er 34. brtt., við 129. gr. Það er farið fram á, að orðið greidd eða greiddra komi alstaðar á eftir „atkvæði“ eða „atkvæða“. Það er tekið fram til þess, að það sé ljóst, að þegar taka á gild atkv. frambjóðanda til þess að teljast flokknum í heild, skuli aðeins miðað við persónuleg atkv. frambjóðandans, því atkv., sem landslistinn fær, eru talin flokknum sér. Það er m. ö. o. lagt til að þessi brtt. sé tekin upp til þess að forðast tvítalningu.

Þá kemur 35. brtt., við 131. gr. a. og b„ sem eru í samræmi við 13. brtt. n. við 30. gr. Það er sú merkasta brtt., sem n. hefir lagt fram, sem sé sú, að fara eftir tveimur reglum við að úrskurða, hverjir frambjóðendur flokks eigi að taka sæti á landslista. Ég þarf ekki að fara frekari orðum um þessa brtt., þar sem frsm. fyrri hl. frv. fór nokkuð nákvæmlega út í að skýra hana.

Þá kemur 36. brtt., við 136. gr.brtt. kveður nánar á um það, hvernig skuli farið að við uppkosningu eftir að kosning hefir verið ógilt eða uppkosning orðið nauðsynleg af öðrum ástæðum. Með þessu nýja skipulagi geta aukakosningar orðið miklu þýðingarmeiri en nokkru sinni áður, og það er vegna uppbótarsætanna. Þess vegna verður að kveða skýrt á um þetta og reyna að fyrirbyggja, að við eina aukakosningu sé með óeðlilegum kosningasamtökum hægt að gerbreyta úrslitum almennra þingkosninga og skapa þingmeirihluta, sem er í andstöðu við meiri hl. kjósenda landsins. Slíkt væri brot á sönnu lýðræði og gæti orðið þingræðinu mjög hættulegt. Við þetta er reglan í 36. brtt. miðuð. Aðalákvæðið er þar, að landskjörstjórn skal að lokinni uppkosningu endurskoða fyrri niðurstöður um úthlutun uppbótarsæta. Þá getur það t. d. komið fyrir, að flokkur, sem hefir fengið uppbótarsæti vegna þess að hann hefir fengið einn þm. kosinn í kjördæmi við kosningu, sem síðar hefir verið gerð ógild, verður að missa uppbótarsæti sín og hverfa með öllu af þingi.

Þetta leiðir af rökréttum hugsanareglum. Ógild kosning á aldrei að geta skapað neinn rétt til þingsætis. Þá er hitt atriðið í þessari brtt., að flokkur, sem við aðalkosningu hefir ekki náð þingsæti í kjördæmi, en nær því við uppkosningu, fær ekki rétt til uppbótarþingsæta. Þetta er sömuleiðis til þess að hindra það, að óeðlileg kosningasamtök leiði til þess, að aukakosningar geti orsakað breyt. á mörgum þingsætum.

Það mætti sýna réttmæti þessarar reglu með mörgum dæmum, en ég tel það óþarfa að svo stöddu.

Þá kemur 37. brtt., við 142. gr. Þar er í fyrsta lagi um orðabreyt. að ræða, samkv. a- og b-lið brtt., en c-liður felur það í sér, að 2. liður gr. skuli falla niður, en það er sá liður, sem bannar prófkosningar og þátttöku í þeim, nema innan skipulagsbundins stjórnmálaflokks eða félags. Það þykir ekki rétt að neita kjósendum um það lýðræði, sem getur verið fólgið í því að láta prófkosningu skera úr, ef ágreiningur er um það, hverjir skuli bjóða sig fram. Ennfremur er það alltaf ágreiningsmál, hvað er skipulagsbundinn stjórnmálaflokkur eða félag. Þess vegna hefir n. orðið sammála um að fella niður þennan lið. — D-liður 37. brtt. er einnig orðabreyt.

38. brtt., við 143. gr., er einungis orðabreyt., en það er ástæða til að benda á, að allshn. Ed. hefir lagt til, að þingsköpum sé breytt til samræmis við ákvæði þessarar gr., og því slegið föstu einnig í þingsköpum, að allar kosningakærur þurfi að koma í hendur þingsins áður en kosningin er metin gild á þingi. En í 5. gr. þingskapa er svo ákveðið, að slíkt skuli gert innan 4 vikna eftir þingsetningu.

Þá kemur 39. gr. brtt., við 145. gr. Þar á að bætast við ný gr., sem hljóðar svo: „Eigi varðar það ógildingu kosningar, þó gilt hafi verið metið atkv. kjósanda utan kjörfundar, sem síðar hefir verið upplýst, að hafi verið á kjörstað á kjördegi“. — Í sambandi við þetta ákvæði er vert að minnast á það, að í 99. gr. þessa frv. er tekið upp það nýmæli, að kjósandi, sem greitt hefir atkv. utan kjörfundar, en er svo staddur á kjörstað á kjördegi, er skyldur til að tilkynna nærveru sína.

Það hefir þótt rétt að taka þetta upp til þess að hindra það, að menn geri sér leik að því að greiða atkv. fyrir kjörfund, enda þótt þeir viti, að þeir muni verða staddir á kjörstað á kjördegi. Það þykir nokkur hætta á því, að ef þetta er alveg frjálst, þá geti farið svo, að kosningar fari aðallega fram fyrir kjördag. En nú er það vitað, að meira öryggi er fyrir réttmæti kosningar og við því, að eigi séu svík í tafli, að hún hafi farið fram á kjörfundi, en ekki utan kjörstaðar. Brtt. þessi ákveður, að eigi sé hægt að ógilda heila kosningu, þótt það upplýsist, að einhver kjósandi hafi verið staddur á kjörstað á kjördegi, sem búinn væri að greiða atkv. áður.

Ef þessi varnagli væri ekki sleginn, væri hætta á, að menn kærðu til Alþingis kosningar og fengju þær ógiltar af þeirri sök, sem hér um ræðir og að okkar áliti ekki er svo stór, að það beri að valda ógildingu kosningar. Því er það ákveðið, að það atkv., sem tekið er gilt af kjörstjórn, skuli halda gildi sínu og því eigi verða breytt síðar og engum kærum komið af stað út af því.

Þá kemur 40. brtt., við 146. gr. Það er ákvæði, sem kveður fyllra á um, hvernig eigi að fara með ógilda kosningu. Þar er ákveðið, að ef ógild er kosning annars frambjóðanda í tvímenningskjördæmi, þá standi kosning hins þm., og ef kosning heils lista í Rvík er dæmd ógild, þá skuli hún öll endurtekin. Þetta er nauðsynlegt, því annars gæti þm. fjöldi flokka í Rvík komizt í ósamræmi við kjósendamagn þeirra innan kjördæmisins. Við skulum hugsa okkur, að flokkur, sem hefir 2 þm. í Rvík, fengi lista sinn dæmdan ógildan af þinginu. Ef aðeins ætti að kjósa um 2 þm., gæti farið svo, að stærri flokkur fengi báða þm., eða a. m. k. annan. En slíkt yrði vitanlega röng mynd af vilja kjósendanna innan kjördæmanna.

Þá kemur 41. brtt., við 148. gr. frv., sem kveður á um greiðslu kostnaðar vegna framkvæmda á l. þessum. N. þótti rétt að fella niður ýms smávægileg ákvæði, þar sem losa átti ríkissjóð við útgjöld, sem verður að teljast réttmætt, að ríkissjóður greiði. Ennfremur er það látið óákveðið, hvort kjörstjórnir fái kaup fyrir ómak sitt, og skulu hreppsnefndir og sýslunefndir ákveða, hvaða reglum þær vilja fylgja í því máli.

Þá kemur 42. brtt., við 149. gr., sem er fyrsta refsiákvæðið í frv. Mér lá við, þegar ég las fyrst yfir frv., að álykta, að sérstakt grimmdaræði hefði gripið þessa nefndarmenn, þegar hér var komið, þar sem refsingar allar eru svo hátt ákveðnar, og svo margt, sem þeir vilja telja refsivert. En við nánari athugun og viðkynningu við nefndarmenn sannfærðist ég um, að þetta er ekki annað en ströng réttlætistilfinning, sem hefir knúð þá til þessa. Stjskrn. var á þeirri skoðun, að lækka beri þessar refsingar, og þá fyrst og fremst vegna þess, að of há refsiákvæði verka oft gagnstætt því, sem þeim er ætlað að verka, því þau hafa þær afleiðingar, að ekki er kært út af broti vegna þess að refsingin þyki of há. Þess vegna varð samkomulag um það í n. að lækka öll sektarákvæði að verulegum mun.

Um 43. brtt., við 150. gr., er þess aðeins að geta, að 4. ákvæðið er fellt niður, sem sé það, að óleyfilegt sé og þar af leiðandi refsivert að taka þátt í prófkosningum. Ennfremur er það ákveðið að bæta inn í 11. tölul. 150. gr., að til þess að það sé refsivert að vanrækja að koma til skila atkvæðabréfi, þurfi slíkt að vera gert af ásettu ráði.

Um 44. brtt., við 151. gr., er þess að geta, að hámark og lágmark refsinga er lækkað og tveir nýir liðir bætast við gr. Það eru liðir, sem samkv. frv. falla undir 152. gr., en þykja að áliti n. eiga betur heima á þessum stað, þar sem ekki er um svo refsivert ákvæði að ræða sem síðari gr. að öðru leyti fjallar um.

Þá kemur 45. brtt., við 152. gr. Þar er líka lækkað hámark refsingar, og tekið er burt úr 1. lið þeirrar gr. ákvæði, sem fært er undir aðra gr. frv. Er þetta gert meðfram með tilliti til þess, að það kann nokkur vafi að vera á því, hvort í upphaflegu gr. gat ekki falizt stjórnarskrárbrot, þar sem refsing getur í einstöku tilfellum orðið missir kosningarréttar. Nú eru sett ákveðin skilyrði í stjskr. til kosningarréttar, og það virðist augljóst, að þau skilyrði eru tæmandi. Löggjafarvaldinu er því ekki heimilt að taka upp ákvæði, sem svipta menn kosningarrétti, ef þeim er ekki refsað fyrir brot, sem er svívirðilegt að almannaáliti, en slíkt þarf til þess að menn hafi það, sem kallað er á lagamáli flekkað mannorð. Ég hygg, að nokkur vafi sé á því, að það brot sé svívirðilegt að almenningsáliti, að maður torveldar hjúi sínu að sækja á kjörstað. Það er refsivert, en vafasamt, hvort það er svo refsivert, að það beri að dæma menn til að missa kosningarrétt fyrir að gera slíkt.

Þá er síðasta brtt., við 155. gr., sem fer fram á það eitt, að í viðbót við öll þau l., sem talin eru í þeirri gr., og nú skulu úr gildi felld, sé tekið fram, að öll l., sem kunna að brjóta í bága við þau, skuli einnig úr gildi felld.

Ég vil svo að lokum mælast til þess, að þessu frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umr.