05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (1262)

30. mál, hafnargerði á Skagaströnd

Jón Jónsson:

Mér skildist helzt á hv. frsm., að hann teldi, að samþ. bæri þessa till. vegna þess, að það yrði til að greiða fyrir því, að síldarbræðsluverksmiðja yrði reist á Skagaströnd. Þetta vildi svo hv. 2. landsk. draga í efa. Ég verð nú að játa mína vankunnáttu í þessum efnum. En ég hygg þó, að mælingar, sem þarna hafa verið gerðar af kunnáttumönnum, sýni, að talsvert dýpi er þarna sumstaðar. Og a. m. k. við eina fyrirhugaða bryggju út af eynni, sem tengja á við land á Skagaströnd, sé svo djúpt, að nokkuð stór hafskip fljóti þar að, og svo myndi vera með togara og þá vitanlega vélbáta. Það er því ekki ólíklegt, að þessi byrjunaraðgerð á höfninni gæti orðið til þess, að staður fyrir síldarbræðsluverksmiðju gæti þarna til greina komið. Og þegar þingið ýtir á þennan hátt við hlutaðeigandi aðiljum, ríkisstj. og héraðsbúum, þá verð ég að líta svo á, að slíkt sé gert með það fyrir augum, að þarna skapist skilyrði fyrir síldarbræðslustöð, því það er rétt, sem hv. 2. þm. Eyf. tók fram, að stj. hefir heimild í l. til að leggja fram fé, gegn framlagi úr héraðinu, og að á því fé var gefinn kostur fyrir nokkrum árum, en þá treysti héraðið sér ekki til að leggja sinn part fram á móti. En það, sem vitanlega gerði álitlegt að ráðast þarna í hafnargerð, er það, ef á bak við lagi, að þarna væri reist síldarbræðslustöð. Það væri vitanlega allt annað. Á Skagaströnd eru frá náttúrunnar hendi ýms góð skilyrði. Í flóanum fram undan er mjög fiskisælt, og það er enginn efi á því, að höfn á Skagaströnd kæmi bæði innanhéraðs- og utanhéraðsmönnum til góðs. En vitanlega er heimild til fjárveitingar til, ef fé er fyrir hendi í ríkissjóði. Það er því að vissu leyti satt, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, að þessi till. er óþörf, nema í henni eigi að felast það, að hana beri að skoða sem bending frá þinginu um, að þarna eigi að reisa síldarbræðslustöð. Í því væri vitanlega mikill styrkur fyrir héraðið um byrjun á hafnarverkinu. Og þótt það hafi ekki séð fært að byrja á því verki, eins og horft hefir við, þá gæti viðhorfið orðið allt annað og yrði það, ef þarna ætti að byggjast síldarbræðslustöð.