02.12.1933
Efri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (1293)

63. mál, áveitur

Jónas Jónsson:

Mér finnst málið hafa skýrzt við ræður tveggja hv. þm., þeirra er síðast töluðu. Hv. 6. landsk. hefir með óyggjandi rökum sýnt fram á, að málið er flókið og að í till. er verulegt atriði, sem hann getur ekki fallizt á, ef til framkvæmda kemur. Ég get ekki fellt mig við, þegar um slíkt stórmál er að ræða, sem hér lítur til fyrir að sé, þar sem ekki aðeins er um að ræða þær áveitur, sem þegar eru til, heldur einnig þær, sem gerðar verða hér eftir, að þessu máli skuli ekki einu sinni vera formlega vísað til n. Væri eðlilegast, að málið færi til landbn. Skil ég ekki, að það komi í bága við það, sem vakað hefir fyrir hv. flm. Með því móti fengi málið betri meðferð, og gæti n. þá lagað till. með brtt.

Ræða hv. 6. landsk. var á góðum rökum byggð, og játaði hann, að líkur væru til, að n. greiddi málinu atkv., en hefir þó, af einhverjum óskiljanlegum orsökum, ekki viljað óska eftir framgangi málsins.

Hv. form. landbn. gat þess, að n. hefði att tal við annan búnaðarmálastjórann og að hann væri málinu velviljaður. Hann er áhugamaður mikill um slík mál, eins og kunnugt er. Er eðlilegast, að Búnaðarfélagsstj. taki málið til meðferðar, því að hér er um að ræða talsverðar kvaðir á Búnaðarfélagið. Svona tilraunastöð verður aldrei komið á fót nema Búnaðarfélagsstj. hafi áður um málið fjallað. Svipuð mál hafa og áður verið rædd á búnaðarþingum. Finnst mér það næsta óeðlileg meðferð á þessu máli að ætla hvorki að fá álit landbn. eða stj. Búnaðarfél. Vona ég, að hv. flm. og landbn. sjái, að betra er, að málið hafi þennan gang. Ég ætlast alls ekki til, að till. gangi milli deilda, svo að nógur tími er til afgreiðslu, þó að hún fari í n. Svo framarlega sem ekki þykir viðeigandi að vísa till. til n., geri ég það að varatill., að umr. verði frestað og málið tekið af dagskrá, svo að þeir hv. þm., sem vilja, geti leitað álits Búnaðarfélagsstj.